Unnið að fjármögnun Vaðlaheiðarganga

Akureyri. Vaðlaheiði í baksýn.
Akureyri. Vaðlaheiði í baksýn. www.mats.is

Kristján Möller ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála segir á vef Vikudags  á Akureyri, að unnið sé að því að koma framkvæmdum í samgöngum í gang með lífeyrissjóðunum. Fyrir norðan horfa menn til Vaðlaheiðarganganna og segir Kristján að þau þurfi að fjármagna með lánsfé sem sé síðan endurgreitt með veggjöldum. Viðræður við fjárfesta gangi vel en of snemmt sé að tala um tímasetningar.

Haft er eftir Kristjáni að fyrir framkvæmdirnar skipti mestu að Alþingi hafi samþykkt lög um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir en lögin hafa þegar tekið gildi.

Með lögunum sé Vegagerðinni heimilt að taka þátt í stofnun hlutafélags með það að markmiði  að standa að gerð jarðganga undir Vaðlaheiði ásamt vegalagningu að þeim auk annars nauðsynlegs undirbúnings. Þá sé Vegagerðinni heimilt að eiga allt að 51% hlutafjár í félaginu og leggja til þess hlutafé í samræmi við fjárheimildir. Einnig sé ráðherra heimilt að fela félaginu að annast rekstur og viðhald jarðganganna.

Í frétt Vikudags er einnig rakið að lögin veiti samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra heimild til að „stofna opinbert hlutafélag sem verði að fullu í eigu ríkisins og hefur það að markmiði að standa að lagningu Suðurlandsvegar frá Vesturlandsvegi austur fyrir Ölfusárbrú að nýjum gatnamótum við núverandi Suðurlandsveg og Vesturlandsvegar frá Kollafirði að Hvalfjarðargöngum og til að ljúka við Reykjanesbraut frá Kaldárselsvegi að Víknavegi, ásamt nauðsynlegum undirbúningi.     

Tilgangur félaganna er að annast framkvæmdir, þ.m.t. áætlanagerð, hönnun, útboð, samningsgerð við verktaka og annað sem nauðsynlegt er til að ljúka megi framkvæmd og taka gjald af umferð um viðkomandi vegi.“
Kristján Möller ráðherra samgöngu- og sveitastjórnarmála.
Kristján Möller ráðherra samgöngu- og sveitastjórnarmála. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert