Ráðuneytið veitti Magma ekki ráðgjöf við kaup á HS Orku

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, vísar því á bug að iðnaðarráðuneytið hafi átt þátt í að leiðbeina Magma um stofnun dótturfyrirtækis í Svíþjóð, svo það það keypt HS Orku. Katrín sagði í fréttum Bylgjunnar að ráðuneytið leiðbeini ekki neinum um hvernig eigi að fara á svig við lög.

Katrín sagðist hafa farið yfir gögn í ráðuneytinu í gær og í dag og ekki séð nein merki þess að ráðuneytið hafi tekið þátt í ákvörðunum Magma.

Iðnaðarráðherra sagðist vita af fundi í ráðuneytinu sem fór fram í apríl 2009 áður en hún tók þar við. Þar hafi ekki verið neitt annað gert en veita ráðgjöf um þau lög sem þyrfti að taka tillit til hér á landi. Magma hlyti að hafa yfir að ráða íslenskum lögmönnum sem gæti frætt það um íslenska löggjöf. Það hafi vart ætlað að treysta á iðnaðarráðuneytið um slíka ráðgjöf.

Katrín sagði iðnaðarráðuneytið og lögmenn þess einungis veita ráðgjöf um þau lög sem menn þurfi að taka tillit til þegar unnið sé að stofnun fyrirtækja.

Þá þótti iðnaðarráðherra undarlegt að nú væri verið að átta sig á því að Magma í Svíþjóð væri skúffufyrirtæki. Það hefði alltaf legið fyrir.

Segir viðbrögð umhverfisráðherra upphlaupskennd

Um fyrirhugaða rannsókn Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, á kaupum Magma á HS Orku sagðist Katrín ekki átta sig á hvað ætti að rannsaka. Sveitarfélögin hafi selt fyrirtækin til einkaaðila sem hafi aftur selt til einkaaðila.

Svandís  sagði í fréttum fjölmiðla í gær, að hún liti mjög alvarlegum augum á málið enda væri það grafalvarlegt ef stjórnsýslan aðstoðaði við að fara á svig við lög. Málið verði rætt í ríkisstjórn. 

Katrín segir viðbrögð umhverfisráðherra upphlaupskennd. Hún hefði viljað að Svandís kynnti sér málið betur áður en hún færi með yfirlýsingar í fjölmiðla. 

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra.
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert