Lágmarkslaun ekki undir 200 þúsundum

Verkalýðsfélag Akraness segost vilja sjá kröfu um að lágmarkslaun verði ekki undir 200 þúsund krónum í komandi kjarasamningum en nú  eru lágmarkslaun fyrir fulla vinnu, 173 tíma á mánuði, 165.000 krónur, að því er kemur fram á heimasíðu félagsins.

„(Það liggur) hvellskýrt fyrir að krafa Verkalýðsfélags Akraness í komandi kjarasamningum verður að lágmarkslaun í þessu landi verði hækkuð allverulega, enda eru þau íslensku samfélagi, atvinnurekendum og síðast en ekki síst okkur í verkalýðshreyfingunni til skammar," skrifar Vilhjálmur Birgisson, formaður félagsins á vef þess í dag. 

Hann segir, að Verkalýðsfélag Akraness muni aldrei taka þátt í neinu í anda þess stöðugleikasáttmála sem gerður var í júní 2009 en þar hafi verkafólk og aðrir launþegar verið þvinguð til að fresta og afsala sér sínum hófstilltu launum sem um var samið 17. febrúar 2008.

„Það þarf einnig að gera þá skýlausu kröfu til allra fyrirtækja sem hafa fjárhagslega burði til að þau komi með veglegar launahækkanir til handa sínu starfsfólki enda er fullt af fyrirtækjum sem hafa fulla burði til að gera slíkt. Nægir að nefna flestöll útflutningsfyrirtæki sem hafa verið að gera góða hluti vegna þeirra gengisbreytinga sem orðið hafa á undanförnum 18 mánuðum," segir Vilhjálmur og bætir við, að það sé tímabært að íslensk verkalýðshreyfing standi þétt saman og sýni tennurnar í því að bæta kjör sinna félagsmanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert