Leggja til hækkun fjármagnstekjuskatts

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur til, að skattur á fjármagnstekjur einstaklinga og fyrirtækja verði hækkaður úr 18% í 20% sem myndi auka skatttekjur um 0,3% af vergri landsframleiðslu. 

Þetta kemur fram í skýrslu, sem sjóðurinn hefur gert um íslenska skattkerfið að beiðni fjármálaráðuneytisins. Þar segir einnig, að í samanburði við önnur OECD-lönd skili íslenska virðisaukaskattkerfið miklum tekjum með litlum neikvæðum áhrifum á atvinnustig og hagvöxt. Óvenjulegar undanþágur og lágt neðra þrep dragi hins vegar úr þessu hlutleysi og tekjuöflunargetu án þess að ná tekjujöfnunarmarkmiðum ef tekið sé mið af neysluvenjum íslenskra heimila.

Leggur sjóðurinn til, að eftir því sem aðstæður leyfa verði þessi sérkenni lögð af en um það bil einum þriðja af tekjuaukanum sem af hlytist yrði varið til að bæta hag tekjulægstu fjölskyldnanna.


Í skýrslunni er talið jákvætt að lagðir hafi verið á auðlinda- og umhverfisskattar  en bent á að skattstofninn ætti að breikka og skattarnir að hækka í átt að því verði sem gildir á losunarheimildamarkaði Evrópusambandsins. Hægt væri að hækka eldsneytisskatta með niðurgreiðslum vegna almenningssamgangna og afla þannig tekna sem nema 0,3% af vergri landsframleiðslu.

Þá segir AGS, að vörugjöld á matvæli ætti að gera markvissari eða leggja af í áföngum. Hlutleysi ökutækjaskatta og hvatar þeim tengdir gagnvart eldsneytiseyðslu ætti að auka. Að lokum sé hægt að afla aukinna skatttekna með eignasköttum með litlum neikvæðum efnahagslegum áhrifum og þá ætti að hækka þegar tekjur og húsnæðismarkaður taka við sér á ný. 

Skýrslan í íslenskri þýðingu fjármálaráðuneytisins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert