Skýrt að aðilar á EES-svæði mega fjárfesta í orkuiðnaði

Unnur G. Kristjánsdóttir.
Unnur G. Kristjánsdóttir.

Unnur Kristjánsdóttir, formaður nefndar um erlenda fjárfestingu, segir Ögmund Jónasson, þingmann Vinstri grænna, hafa farið með rangt mál þegar hann sagði í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í kvöld að íslensk lög heimili ekki að erlendir aðilar eigi í orkufyrirtækjum.

Segir Unnur að aðilum á EES-svæðinu sé heimilt að fjárfesta í íslenskum orkuiðnaði og vísar í eftirfarandi lagagrein:

Íslenskir ríkisborgarar og aðrir íslenskir aðilar mega einir eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita önnur en til heimilisnota. Sama á við um fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu. Sama rétt hafa einstaklingar sem búsettir eru í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, öðru aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum og lögaðilar sem heimilisfastir eru í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, öðru aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum.

„Þar sem fréttamaður fjallaði ekki um þessa röngu staðhæfingu þingmannsins leyfi ég mér að benda á þetta og um leið að undrast yfir því að þingmaður fari með svo rangt mál," segir Unnur í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert