160 þúsund tonn af þorski

Sjómenn gera að þorski.
Sjómenn gera að þorski. mbl.is/Þorgeir Baldursso

Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, hefur ákveðið að aflamark þorsks verði 160 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári. Er það í samræmi við veiðireglu og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar en jafnframt hefur verið ákveðið að skipa samráðsvettvang til að yfirfara aflaregluna.

Aflamark á yfirstandandi fiskveiðiári var 150 þúsund tonn en 162 þúsund tonn á fiskveiðiárinu þar á undan. 

Sjávarútvegsráðherra hefur undirritað reglugerð um leyfilegan heildarafla á næsta fiskveiðiári og er hún í flestum tilfellum í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.  Aflamark ýsu verður 50 þúsund lestir en ráðgjöf Hafró hljóðaði upp á 45 þúsund lestir. Þá hefur aflamark ufsa verið ákveðið 50 þúsund lestir en ráðgjöfin var upp á 40 þúsund lestir.

Þá verður leyft að veiða meira af grálúðu og steinbít en stofnunin lagði til og veiðar á úthafsrækju verða gefnar frjálsar þar sem ekki hefur á neinu fiskveiði ári frá fiskveiðiárinu 2000/01 verið aflað upp í útgefið aflamark. 

Ráðuneytið segir, að skiptar skoðanir hafi verið um nýtingarstefnuna í þorski og þá aflareglu sem nú sé miðað við. Þorskstofninn hafi stækkað meira og fyrr en gert var ráð fyrir í eldri spám Hafrannsóknastofnunarinnar, þrátt fyrir að veitt hafi verið talsvert umfram aflareglu. Raunar hafi tvívegis verið aukið við þorskaflann um 30 þúsund tonn í hvort skipti á liðnum árum og síðast í janúar 2009.

Með hliðsjón af þessu hafi Jón  ákveðið að setja á laggirnar samráðsvettvang um nýtingarstefnuna sem í eigi sæti m.a. fulltrúar stjórnvalda, atvinnugreinarinnar og fiskifræðinga.  Fyrsta verkefni samráðsvettvangsins verður að fara yfir aflaregluna í þorski og meta hvort ástæða er til að leggja til breytingu á henni með tilliti til breyttra aðstæðna og sterkari  stöðu stofnsins. Verði lögð til breyting mun verða haft samráð við Alþjóðahafrannsóknaráðið, m.a. með tilliti til sjálfbærni veiðanna. Næsta verkefni samráðsvettvangsins er að fjalla um, hvort hægt sé að mæla með að tekin verði upp nýtingarstefna vegna veiða á ufsa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert