Írar beita sér innan ESB gegn makrílveiðum Íslendinga

Makríll.
Makríll.

Nýleg umsókn Íslands um að ganga í ESB hefur steytt á skeri hjá framkvæmdastjórn ESB vegna fiskveiðistefnu Íslendinga, eftir að ráðamenn í Dublin lýstu áhyggjum yfir auknum makrílveiðum þeirra, að sögn blaðsins The Irish Times.

Blaðið segir, að Seán Connick, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Írlands, hafi tekið málið upp á ráðherrafundi í Lúxemborg nýlega og átta aðrir ráðherrar hafi tekið undir þá skoðun, að Íslendingar séu að veiða makríl án þess að taka tillit til alþjóðlegra samninga um stjórn veiða úr stofninum.

Segir í frétt The Irish Times, að Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, hafi ritað bréf til Stefans Füle, stækkunarstjóra ESB, til að vekja athygli hans á stöðu málsins.

„Ég vil ekki láta hjá líða að upplýsa þig um mjög alvarlegt mál, sem hætta er á, að hafi neikvæð áhrif á væntanlegar aðlögunarviðræður milli ESB og Íslands. Um þessar mundir er mikill ágreiningur milli ESB og Íslands um stjórn á einum verðmætasta fiskstofni í norðaustur Atlantshafi, það er makríl,“ segir í bréfinu, sem Irish Times hefur undir höndum.

Í bréfinu segi sjávarútvegsstjórinn, að ekkert réttlæti auknar makrílveiðar Íslendinga auk þess hafi viðræður um málið í maí reynst árangurslausar.

„Afstaða Íslands hefur neikvæð áhrif á stofninn og hefur sérstaklega slæm áhrif á fiskveiðihagsmuni ESB, þar sem við eigum stærsta hlutdeild í þessum fiskveiðum.“

Blaðið hefur eftir talsmanni írsku ríkisstjórnarinnar, að Írar hafi stutt aðildarumsókn Íslendinga og voni að aðildarviðræður hefjist innan skamms. Írland hafi einkum hagsmuna að gæta í sjávarútvegi, sem viðurkennt sé að verði meginatriði væntanlegra viðræðna.

Frétt Irish Times


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert