„Kreppan er búin“

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins mbl.is/Árni Sæberg

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri samtaka atvinnulífsins, kveðst ánægður með þær tölur sem Hagstofan hefur birt úr úttekt sinni um vinnumarkaðinn á öðrum ársfjórðungi. Þar kemur m.a. fram að starfandi hafi fjölgað um tvö þúsund manns milli ára.

„Þetta þýðir bara eitt: Kreppan er búin,“ segir Vilhjálmur. 

Hann telur að núna taki hjól atvinnulífsins loks að snúast í rétta átt en tekur fram að enn sé langt í land. Hann telur jafnframt að nú sé brýnt að hvetja til fjárfestinga í fyrirtækjum til að auka atvinnu.

Vilhjálmur kveðst einnig ánægður með að kaupmáttur launa hafi, í fyrsta sinn eftir hrun, hækkað en það má m.a. rekja til 2,5% launahækkun sem varð 1. júní. 

Greining Íslandsbanka tekur í svipaðan streng og Vilhjálmur og segir í Morgunkorni sínu í dag, að tölurnar, sem Hagstofan birti í morgun beri þess merki að kreppan hafi náð hámarki sínu.

Segir Íslandsbanki, að árstíðarsveiflan á vinnumarkaði sé þannig að atvinnuleysi mælist almennt hæst á öðrum ársfjórðungi af öllum fjórðungum ársins. Atvinnuleysið mælist vanalega mun lægra á þriðja og fjórða ársfjórðungi. Megi þannig reikna með bæði útfrá almennri efnahagsþróun og árstíðarsveiflunni á vinnumarkaðinum að atvinnuleysið hafi náð hámarki sínu í þessari kreppu á þriðja ársfjórðungi í fyrra þegar það var 9,1%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert