Miðað við að verðtryggja átti lánið

Héraðsdómur Reykjavíkur gengur í dómi um kröfu eignaleigufélagsins Lýsingar vegna bílasamnings, út frá því, að aðilar hafi ætlað sér að tengja samninginn ákveðinni verðvísitölu sem í þessu tilviki var gengisvísitala. Hæstiréttur dæmdi í júní að slík verðtrygging hafi verið ólögmæt. 

Segir dómurinn að með hliðsjón af efni samningsins sé  ljóst að aðilar hafi við gerð hans tekið mið af því að lánið yrði verðtryggt með ákveðnum hætti og að jafnframt yrðu greiddir vextir sem tækju mið af umsaminni gengistryggingu sem dæmd hefur verið óheimil.

„Vegna þessara forsendna, sem taldar verða verulegar og ákvörðunarástæða fyrir lánveitingunni og báðum aðilum máttu vera ljósar, en reyndust vera rangar, verður að fallast á það með stefnandi (Lýsing) að samningur aðila bindi hann ekki að því er vaxtaákvörðunina varðar. Á stefnandi því rétt á, að stefndi greiði honum þá fjárhæð, sem ætla má að aðilar hefðu ellegar sammælst um, án tillits til villu þeirra beggja. Þykja hvorki neytendasjónarmið né staða aðila við samningsgerðina breyta þeirri niðurstöðu," segir í dómnum.  

Kemst dómurinn síðan að þeirri niðurstöðu, að  líta verði til ákvæða vaxtalaga  og reikna vexti af umræddu láni til samræmis við þá vexti, sem Seðlabanki Íslands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum af nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum.

Ítrustu kröfur Lýsingar í málinu hljóðuðu upp á 1,3 milljónir króna en þar var miðað við verðtryggingu og vexti sem Lýsing ákvað. Fallist var á kröfu sem hljóðaði upp á 796 þúsund krónur.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert