Tilmælin standa þar til óvissunni verður eytt

Arnór Sighvatsson, aðstoðarbankastjóri Seðlabankans, og Gunnar Andersen, forstjóri FME, sjást …
Arnór Sighvatsson, aðstoðarbankastjóri Seðlabankans, og Gunnar Andersen, forstjóri FME, sjást hér á blaðamannafundi þar sem þeir kynntu tilmælin í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert

Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Lýsingar um kröfu vegna bílasamnings ekki koma á óvart.

„Við mátum það svo, þegar við vorum að gefa út þessi tilmæli, að það væri eðlilegt að reikna þetta á þessum grunni [að vextir Seðlabankans standi].“

Mikilvægt sé að tryggja fjármálastöðugleika hér á landi.  Út frá því sjónarmiði er Gunnar sáttur. Samkvæmt dómi héraðsdóms verður miðað við lægstu óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands en það er í samræmi við tilmælin sem Fjármálaeftirlið og Seðlabankinn gáfu út eftir að Hæstiréttur dæmdi að gengistrygging lána væri ólögmæt.

Niðurstöðu Héraðsdóms verður áfrýjað til Hæstaréttar.

„Ef dómur Hæstaréttar fellur á einhvern annan veg, þ.e.a.s. ef hann staðfesti þessa erlendu samningsvexti, þá er önnur lending í þessu máli. Önnur niðurstaða og önnur sviðsmynd sem kemur upp, sem er náttúrulega miklu dekkri. En það eru svo margar útgáfur af þessum lánum, skuldabréfum og lánasamningum, að það þarf kannski marga dóma til að fá endanlega niðurstöðu, sem þá spannar allar útgáfur af þessum útlánsformum,“ segir Gunnar.

Fræðilega geti slík mál staðið yfir næstu mánuði og ár.

„Það er óvissa sem skapast með því en við erum með þessi tilmæli sem við ætlum að halda okkur við, þangað til þessari óvissu hefur verið eytt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert