Fréttaskýring: Dómurinn fjórfaldar vextina

Umsamdir vextir í kaupleigusamningi um bifreið sem kvað á um ólögmæta gengistryggingu lánsfjár fjórfaldast sé miðað við meðalvexti á lánstímanum. Þetta leiðir af niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Lýsingar hf. gegn skuldara sem kveðinn var upp í gærmorgun. Hag skuldara er þó mun betur borgið samkvæmt þessari niðurstöðu en ef gengistryggingin hefði fengið að standa.

Gengislán skulu samkvæmt dómnum bera lægstu vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður á hverjum tíma með hliðsjón af lægstu vöxtum af nýjum almennum óverðtryggðum útlánum. Á lánstíma þess láns sem um ræddi í málinu voru óverðtryggðir vextir bankans hæstir yfir 20%. Að sögn Jóhannesar Árnasonar, lögmanns lánþegans, voru þeir að meðaltali 18,2%. Nú eru lægstu óverðtryggðu vextir Seðlabanka Íslands 8,25%.

Niðurstaða héraðsdóms er í nokkru samræmi við tilmæli Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins. Þar var til þess mælst að miðað yrði við lægstu óverðtryggðu vexti á hverjum tíma eða verðtryggingu og verðtryggða vexti.

Er dómurinn fyrsti dómurinn sem fellur í kjölfar þess að Hæstiréttur Íslands kvað upp dóma þess efnis að gengistrygging lánsfjár í íslenskum krónum væri ólögmæt og að samningsákvæði um slíka tryggingu væru ekki skuldbindandi. Hæstiréttur tók af réttarfarsástæðum ekki afstöðu til þess hvort vaxtaákvæðum skyldi breytt. Sló Hæstiréttur því föstu í dómum sínum að kaupleigusamningar á borð við þann sem hér um ræðir fælu í sér lán.

Tryggingin forsenda vaxta

Héraðsómari tók aðalkröfur aðila ekki til greina en féllst á fjórðu varakröfu Lýsingar um að miðað skyldi við ógengistryggða vexti Seðlabankans. Sú niðurstaða var byggð á því að gengistrygging hefði verið forsenda vaxtaákvæðanna af hálfu lánveitanda og hún hefði verið röng og brostið.

Þessi forsenda hafði að mati dómara svo mikið vægi að með því að hún brysti gætu vaxtaákvæði ekki verið bindandi. Einnig taldi dómari að báðum aðilum mætti vera vægi gengistryggingar sem forsendu vaxtaákvæða ljóst.

Að þessu virtu taldi dómari að Lýsing ætti rétt til þeirrar fjárhæðar úr hendi lánþega sem ætla mætti að aðilar hefðu sammælst um á réttum forsendum. Þóttu hvorki neytendasjónarmið né staða aðila við samningsgerðina eiga að hagga þessu.

Óumdeilt var í málinu að samningskjör miðuð við óverðtryggt lán væru hagfelldust þeirra kjara sem hjá Lýsingu buðust. Þess vegna skyldi að mati dómara miða lánakjörin nú við óverðtryggða vexti Seðlabanka. Var þetta rökstutt með vísan til grunnraka samningaréttarins um sanngirni og neytendasjónarmiða sem fram koma í 36. gr. c samningalaga.

Aðilar gerðu ítrustu kröfur

Í málinu krafðist skuldari þess að farið yrði eftir vaxtaákvæðum upphaflegs samnings, vextir yrðu 4,34% eða breytilegir LIBOR-millibankavextir auk 2,9% álags. Byggði lánþegi á því að dómar Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar íslensks lánsfjár fælu aðeins í sér að ákvæði um gengistryggingu skyldi niður falla en samningur skyldi að öðru leyti standa óhaggaður.

Kvaðst lánþegi einnig hafa greitt það sem honum bæri að greiða. Taldi dómari að ekki hefði verið sýnt fram á það.

Í aðalkröfu Lýsingar var þess krafist að lánsfjárhæðin yrði verðtryggð og bæri að auki vexti samkvæmt gjaldskrá Lýsingar á hverjum tíma. Var krafan byggð á því að ætlunin hefði frá upphafi verið að tengja lánsfjárhæðina ákveðinni vísitölu. Eðlilegt væri því að lögmæt verðtrygging kæmi í stað gengistryggingar. Féllst dómari ekki á þetta og studdi þá niðurstöðu með vísan til sjónarmiða neytendaverndar.

Fyrir liggur að málinu verður áfrýjað til Hæstaréttar. Ekki er ljóst hvenær það verður tekið fyrir þar.

Dómurinn er ekki ósanngjörn lending

„Niðurstaða héraðsdóms er ekki fjarri því sem ég taldi líklegt í málinu þótt aldrei sé hægt að gefa sér slíkt fyrir fram,“ segir Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, í samtali við Morgunblaðið. Mikilvægt sé þó að gera sér grein fyrir að Hæstiréttur eigi eftir að dæma í málinu. Heildrænt séð segir Gylfi niðurstöðu hérðaðsdóms nokkuð sanngjarna. Væri einungis litið til samningsvaxta bitnaði það á endanum á almenningi.

„Niðurstaðan byggist á þeim vöxtum sem rætt er um í lögunum og er þar fyrir utan ekki ósanngjörn lending á milli ýtrustu krafna bæði lánveitenda og lántaka.“

Gylfi hefur sagt að það yrði þungt högg á kerfið ef samningsvextir stæðu. Hann telur að fjármálakerfi landsins muni vart þola áfallið ef allt fer á versta veg frá sjónarhóli lánveitenda hvað varðar gengistryggð lán í íslenskum krónum.

„Það er að vísu ekki út af bílalánunum eingöngu, þau vega nú ekki mjög þungt. Lán til fyrirtækja vega miklu þyngra, ef samningsvextir ættu að vera á öllum myntkörfulánum fyrirtækja yrði það mjög þungt högg á kerfið og ríkissjóð og þar með almenning.“ hjaltigeir@mbl.is

Dómurinn gefur skýrari línur

Kjartan Georg Gunnarsson, framkvæmdastjóri SP fjármögnunar, fagnar niðurstöðu héraðsdóms í máli Lýsingar gegn skuldara gengistryggðs bílaláns.

„Niðurstaðan er í takt við það sem ég bjóst persónulega við,“ segir Kjartan. Það beri þó að hafa í huga að dómurinn sé í héraði og því eigi Hæstiréttur eftir að taka afstöðu í málinu.

Hann segir vinnu vera í fullum gangi við endurútreikninga á þeim lánum sem hægt sé að endurútreikna miðað við gefnar forsendur. Fleiri dóma þurfti þó áður en endurútreikningarnir verði kláraðir „Dómurinn breytir engu í okkar vinnu við endurútreikningana nema við fáum skýrari línur,“ segir Kjartan.

Tilmæli FME og Seðlabankans standa

Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur ekki koma á óvart.

„Við mátum það svo, þegar við vorum að gefa út þessi tilmæli, að það væri eðlilegt að reikna þetta á þessum grunni [að vextir Seðlabankans standi].“

Mikilvægt sé að tryggja fjármálastöðugleika hér á landi. Út frá því sjónarmiði er Gunnar sáttur.

Málinu verður áfrýjað. Gunnar segir að ef dómur Hæstaréttar falli á annan veg, þ.e. að dómstóllinn staðfesti að samningsvextirnir skuli standa, þá sé sviðsmyndin önnur og dekkri.

Þar til óvissunni hafi verið eytt muni FME og SÍ halda sig við þau tilmæli sem hafa verið gefin út um endurútreikning á gengistryggðum lánum.

Niðurstaða héraðsdóms kom á óvart

„Í fljótu bragði virðist dómurinn hafa fallist á rök Lýsingar um að vaxtaákvæði Seðlabankans, skv. lögum um vexti og verðtryggingu, eigi að taka við, eftir að gengistryggingin er dæmd ólögmæt,“ segir Jóhannes Árnason, lögmaður skuldara sem Lýsing höfðaði mál gegn vegna gengistryggðs bílaláns. Hann segir að niðurstöðunni verði áfrýjað.

„Svo virðist að dómarinn komist að þeirri niðurstöðu að samningsákvæðið sé það tengt gengistryggingunni að það falli brott,“ segir hann ennfremur.

„Þetta kemur á óvart. Ég get ekki séð hvaða lög og réttarheimildir eiga að leiða til þessarar niðurstöðu. En við eigum eftir að fara betur yfir forsendurnar og sjá hvernig dómarinn komst að þessari niðurstöðu.“

Segja dómana ekki eiga við

• Þeir gildi ekki um aðra samninga en kaupleigusamninga Haldið verður áfram innheimtu vegna rekstrar-, tækja- og fjármögnunarsamninga hjá Íslandsbanka sem fjármagnaðir voru í erlendum myntum. Þetta kemur fram í tilkynningu sem bankinn hefur sent þeim viðskiptavinum sínum sem eru með slíka samninga við hann.

Fram kemur í tilkynningunni að það sé mat Íslandsbanka að dómar Hæstaréttar frá því í júní, um ólögmæti gengistryggingar, eigi aðeins við um kaupleigusamninga en ekki efni annarra leigusamninga sem sé í „veigamiklum atriðum frábrugðið kaupleigusamningum“. Því verði „áfram miðað við umsamda myntsamsetningu við útreikninga framtíðarleigureikninga á fjármögnunarleigusamningum“.

Yfirlýsing frá Lýsingu

Hliðstæð tilkynning hefur verið send út af fjármögnunarfyrirtækinu Lýsingu hf. vegna rekstrar-, einka- og fjármögnunarleigusamninga. Er þar vitnað í lögfræðiálit til stuðnings því mati fyrirtækisins að dómar Hæstaréttar eigi „að öllum líkindum ekki“ við um umrædda samninga.

Nýir greiðsluseðlar

Fram kemur á heimasíðu Íslandsbanka að sendir verði út greiðsluseðlar vegna gjalddaga í júlí með eindaga 28. júlí nk. Hjá Lýsingu er eindaginn vegna greiðslu í júlí hins vegar settur á 3. ágúst.

Bæði fyrirtæki leggja áherslu á að þessar ákvarðanir skerði ekki rétt leigutaka sem síðar kunni að skapast vegna nýrra dóma Hæstaréttar. hjorturjg@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert