Sérstakar yfirlýsingar

Magma-deilan hefur reynst stjórnarflokkunum erfið.
Magma-deilan hefur reynst stjórnarflokkunum erfið. Reuters

Finna þarf málamiðlun í Magma-deilunni sem allir flokkar geta unað við, að mati Björns Vals Gíslason, þingmanns VG. Björn Valur segir stjórnina í þröngri stöðu og að þeir þingmenn VG sem hóti að hætta að styðja stjórnina geti þurft að standa við það eða skipta um skoðun. Hótunin sé óheppileg.

Björn Valur sat fund með ríkisstjórninni í morgun þar sem Magma-deilan bar á góma. Hann segir enn fundað um lausn málsins. 

„Það var eindreginn vilji fólks að leysa málið. Það hefur verið unnið í því um helgina og það er enn verið að vinna að því. Það standa yfir fundahöld núna og ég held að það sé sameiginlegur vilji beggja stjórnarflokkanna að leysa þetta. Ég hef alla trú á að það verði gert á næstu dögum.“

- Nú hafa Atli Gíslason og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir gefið út að þau styðji ekki stjórnina nema farið verði að vilja þeirra í þessu máli. Hafa þessi ummæli valdið titringi hjá ykkur í VG?

„Nei, ekki þannig. En það er auðvitað mjög sérstakt að fólk lýsi því yfir fyrirfram að ef það nái ekki fram sínum ítrustu kröfum í einhverjum málum að það styðji þá ekki lengur ríkisstjórn, í það minnsta á meðan verið er að leysa málið. Þetta eru dálítið stór orð og það gæti farið svo að fólk yrði annað hvort að standa við þau eða skipta um skoðun.“

Ekki allir vegir færir

Björn Valur segir stjórnina í þröngri stöðu. 

„Við vitum ekki hvaða lending verður í þessu máli. Okkur eru ekki allir vegir færir í því. Þannig að það er líklegra en hitt að við verðum að finna einhverja sameiginlega lendingu sem allir geta unað við, ekki eingöngu þeir sem hóta stjórnarslitum. Þeir sem gera það eru þá sömuleiðis þeirrar skoðunar að þetta mál sé betur leyst af einhverjum öðrum en okkur. Því er ég ósammála.“

- Hvernig meturðu stöðu ríkisstjórnarinnar á þessum tímapunkti?

„Hún kemst í gegnum þetta án nokkurs vafa. Þetta mun leysast á allra næstu dögum. Þegar það er komið mun ríkisstjórnin auðvitað halda áfram enda veit ég ekki hvað ætti að bjóða þessari þjóð upp á annað í augnablikinu. Þetta mál er okkur erfitt og það hafa verið látin stór orð falla sem betur hefðu verið látin ósögð að mínu mati.“

Stjórnin ekki í öndunarvél

- Hvernig bregstu við þeirri fullyrðingu í bloggheimum að stjórnin sé í öndunarvél?

„Nei. Ekki þannig. Hún mun komast í gegnum þetta enda er ekki vilji til þess hjá þjóðinni að einkavæða orkuauðlindir landsins eins og stjórnarandstöðuflokkarnir vilja gera. Þess vegna tel ég engan vilja til þess að Vinstrihreyfingin - grænt framboð feli Sjálfstæðisflokki eða Framsóknarflokki að leysa þessi mál. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur maður vilji það.

Augljóslega er þetta mál okkur erfitt. Það er það. Ég held að þetta sé öllum flokkum erfitt. Hver er afstaða annarra flokka til málsins? Hver er afstaða Framsóknarflokksins? Ég heyrði í formanni Framsóknarflokksins í dag að þetta væri Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að kenna. Ég man ekki betur en að þetta hefði verið einkavætt árið 2007 í ríkisstjórnartíð Framsóknarflokksins.

Á þeim dögum var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ekki með aðstöðu hér á landi nema þá að hann sé eitthvað héraðssamband á vegum Framsóknarflokksins,“ segir Björn Valur Gíslason.

Björn Valur Gíslason.
Björn Valur Gíslason.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert