Kannast ekki við áform stjórnvalda

Ásgeir Margeirsson.
Ásgeir Margeirsson. mbl.is

Ásgeir Margeirsson, forstjóri Magma Energy á Íslandi, segir stjórnvöld ekki hafa haft samband við sig vegna áforma þeirra um að staðfesta ekki samninga um kaupin á HS Orku vegna efasemda um lögmæti þeirra.

Vísir.is greindi frá því fyrir skömmu að þetta væru áform ríkisstjórnarinnar. Boðað hefur verið til blaðamannafundar klukkan 16:30 þar sem niðurstaðan verður kynnt. Viðskiptablaðið segir á vef sínum, að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hafi ákveðið að skipa nefnd sem fara á yfir lögmæti kaupa Magma á eignarhlut í HS Orku, einkavæðingarferli Hitaveitu Suðurnesja frá byrjun árs 2007 og starfs- og lagaumhverfi orkumála í heild sinni. Kaup Magma á eignarhlutum í HS Orku verði ekki staðfest á meðan að nefndin rannsakar lögmæti þeirra en nefndin á að skila niðurstöðu fyrir 15. ágúst.

„Það var nú bara einhver að hringja og segja mér hvað stæði þarna á netinu. Ég get ekkert sagt um þetta ég verð bara bíða eftir því sem ríkið segir, ætla þeir ekki að segja eitthvað um þetta í dag?“ segir Ásgeir sem kveðst ekki viss um hvort einhverju verði við málið að bæta ef þetta verður efni yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert