Krossá er að taka landið

Ferðafólk þarf að fara varlega þegar ekið er inn í …
Ferðafólk þarf að fara varlega þegar ekið er inn í Þórsmörk. Brynjar Gauti

„Krossáin er bara að taka landið við Álfakirkju,“ sagði Daníel Óskarsson langferðabílstjóri hjá Kynnisferðum. „Hún er búin að taka allan gróður og ef hún heldur svona áfram þá er kominn nýr farvegur uppvið Álfakirkju. Þá verður að fara yfir Krossá til að komast í Bása.“

Daníel ekur fjórhjóladrifinni rútu í Þórsmörk en Kynnisferðir eru með áætlunarferðir þangað tvisvar á dag. Daníel segir illt í efni ef Krossáin fær að grafa sér nýjan farveg við Álfakirkjuna. Til skamms tíma þurfti ekki að fara fyrir Krossána til að komast í Bása þar sem Útivist er með skála.

„Þú ferð ekki með tjaldvagn yfir ána til að komast í Bása eins og ástandið er núna, sagði Daníel. Hann sagði að pyttir væru farnir að myndast í farveginum og leiðin ekki fyrir litla jeppa, aðeins stóra fjórhjóladrifsbíla og jeppa af stærri gerðinni.

„Þetta er stórbreyting,“ sagði Daníel. Hann sagði að vöðin yfir í Langadal og Húsadal séu leiðinleg þessa dagana.

Daníel sagði að litlir bílaleigujeppar hafi lent þarna í vandræðum. Eins hafa ferðamenn lent í vandræðum á eigin bílum. Til dæmis voru erlendir ferðamenn á nýjum Nissan Pathfinder-jeppa á leið í Norrænu. Þeir ákváðu að koma við í Krossá og tókst ekki betur til en að það flæddi inn í bílinn um hliðargluggana. Draga þurfti jeppann til Reykjavíkur.

Gömul lögreglustöð er innan við Álfakirkju. Húsið var notað við gæslu á árum áður þegar fjölmennar útihátíðir voru í Þórsmörk og hefur verið notað sem sumarhús. Nú er farið að flæða alveg upp að húsinu og stutt í að það fari á flot, ef svo fer sem horfir.

Mikil aska og leir er í öllum vatnsföllum í Þórsmörk. Framburðurinn hefur fyllt í farveg Krossár og þess vegna hefur hún flæmst yfir að Álfakirkju. Daníel telur helst til ráða að fara með stóra jarðýtu inneftir og ýta upp garði til að breyta farvegi Krossár svo hún grafi sig ekki niður við Álfakirkju. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert