Vilja viðskiptabann á Ísland og Færeyjar

Samtök hagsmunaaðila í uppsjávarveiðum innan Evrópusambandsins (ESB) kölluðu eftir því í gær að framkvæmdastjórn sambandsins beitti sér tafarlaust gegn veiðum Íslendinga og Færeyinga á makríl innan lögsögu landanna. Er ESB hvatt til þess að beita Færeyjar og Ísland refsiaðgerðum vegna „ábyrgðarlausrar hegðunar landanna tveggja.“

Áhyggjur samtakanna beinist að því að Íslendingar og Færeyingar stofni makríl stofnum í hættu með því að taka sér einhliða kvóta í þeim. Þau segja að það gæti haft alvarlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir makríl veiðar ríkja innan ESB ef veiðar íslenskra og færeyskra fiskiskipa verði ekki stöðvaðar tafarlaust.

Þess er m.a. krafist að Íslendingar og Færeyingar verði beittir viðskiptaþvingunum. Bannað verði að flytja inn sjávarafurðir frá löndunum tveimur til ESB. Einnig að efnahagslögsögu sambandsins sem og öllum höfnum innan þess verði lokað fyrir íslenskum og færeyskum fiskiskipum og að íslensk og færeysk skip sem veiði makríl verði sett á svartan lista yfir skip sem stundi ólöglegar veiðar.

Í tilfelli Færeyja er ennfremur kallað eftir því að fiskveiðisamningum á milli Færeyinga og ESB verði rift og farið fram á það við norsk stjórnvöld að þau geri slíkt hið sama í ljósi samninga ESB við Norðmenn um makrílveiðar. Aukinheldur að makrílveiðum Færeyinga verði mótmælt harðlega á opinberum vettvangi á þeim forsendum að um ólöglegar veiðar sé að ræða.

Þá er farið fram á það að krafa um að Íslendingar hætti tafarlaust makrílveiðum sínum verði sett fram í tengslum við umsókn Íslands um inngöngu í ESB.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert