Æsileg eftirför með þyrlu

Þyrla Landhelgisgæslunnar sveimar yfir svæðinu þar sem ökumaður mótorhjólsins var …
Þyrla Landhelgisgæslunnar sveimar yfir svæðinu þar sem ökumaður mótorhjólsins var loks stöðvaður. mynd/Benedikt Finnbogi

Ökumaður mótorhjóls var stöðvaður á Malarhöfða í Reykjavík í kvöld eftir æsilega eftirför lögreglunnar á Selfossi og í Reykjavík, með aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar. Hófst eftirförin á Hellisheiði er ökumaðurinn mældist á ofsahraða, hátt í 200 km hraða.

Sinnti ökumaðurinn ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og á leiðinni eftir Suðurlandsvegi til Reykjavíkur voru settar upp tvær hindranir. Fór hann í gegnum þær báðar og setti lögreglumenn í stórhættu, að sögn lögreglunnar á Selfossi. Það var svo við Malarhöfða í Reykjavíkur að ökuþórinn missti stjórn á hjólinu og rann til á malbikinu. Stóð hann upp óslasaður en var handtekinn og færður til yfirheyrslu hjá lögreglunni í Reykjavík.

Það voru löggæslumenn um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar, sem voru við umferðareftirlit á Suðurlandsvegi, sem tilkynntu um ofsaaksturinn um kl. 21.40 í kvöld. Eftirförinni lauk rúmum hálftíma síðar. Að sögn lögreglunnar á Selfossi skapaðist stórhætta á Suðurlandsvegi, enda umferð þung um veginn við upphaf verslunarmannahelgarinnar.

Lögreglumenn við mótorhjólið eftir að loks tókst að stöðva ökumanninn.
Lögreglumenn við mótorhjólið eftir að loks tókst að stöðva ökumanninn. mynd/Benedikt Finnbogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert