Segir Baug hafa kostað þátt Jóhanns

Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri.
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri.

Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu, segir að morgunþáttur Jóhanns Haukssonar, sem eitt sinn var á dagskrá stöðvarinnar, hafi verið kostaður af Baugi Group.

„Á sínum tíma leigði Baugur Group tvo tíma af okkur á morgnana, og þeir völdu sinn blaðamann til að sjá um þann þátt, sem var Jóhann Hauksson. Þeir sáu um að greiða honum laun. Þetta fór aldrei neitt í gegnum mig, þeir greiddu launin beint til hans. Samningur var gerður um hvernig launagreiðslunum yrði háttað, þannig að þetta liggur alveg fyrir," segir Arnþrúður í samtali við mbl.is.

Þáttur Jóhanns Haukssonar, Morgunhaninn, var á dagskrá Útvarps Sögu fyrir fjórum árum síðan. Arnþrúður segir að aldrei hafi komið fram í auglýsingum fyrir þáttinn að kostunaraðili hans væri Baugur Group. „En ég tel að Jóhann hafi verið inn á DV allar götur síðan hann hætti hér, einnig á kostnað Baugs. Jóhann hefur alltaf haft þennan háttinn á, hann fer inn á fjölmiðla, finnur sér stað og fær greidd laun frá Baugi og tengdum aðilum. Baugsmenn kosta blaðamenn á ýmsum fjölmiðlum í dag, til að mynda Pressunni," segir hún.

„Útvarp Saga getur leigt út þætti og látið utanaðkomandi aðila kosta þætti, ráð er gert fyrir slíku í útvarpslögunum. Þetta gerir Ríkissjónvarpið líka. Það hefur aldrei verið neitt launungarmál að Iceland Express kostar einn af okkar þáttum. DV kýs að kalla Útvarp Sögu „auglýsingahórur“ fyrir vikið, og hafa það eftir háttvirtum diplómat, Eiði Guðnasyni. Þarna er kannski nýjasta dæmið um orðbragðið í íslenskri stjórnsýslu," segir Arnþrúður Karlsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert