Fréttaskýring: Skerðing lífeyris vegna verðbóta er keðjuverkandi

Vextir sem lífeyrisþegar Tryggingastofnunar ríkisins fá skerða tekjur þeirra, hvort sem vextirnir eru í raun verðbætur til að viðhalda eigninni eða raunveruleg ávöxtun. Það sama á við þótt vextirnir haldi ekki í við verðbólguna og eignin sé í raun að minnka að raungildi.

Lífeyrir sem Tryggingastofnun reiknar út í ársbyrjun og greiðir fólki mánaðarlega er í raun áætlun sem byggist á tekjuáætlun sem lífeyrisþegarnir bera formlega ábyrgð á. Málið er síðan gert upp um mitt næsta ár, þegar talið hefur verið fram til skatts. Þá fá margir bakreikning frá Tryggingastofnun.

Hvernig má það vera að tæplega helmingur þeirra lífeyrisþega sem fengu fjármagnstekjur á árinu 2009 hafi ekki gert Tryggingastofnun grein fyrir þeim? Greinilegt er að flestir treysta tillögu Tryggingastofnunar að tekjuáætlun og sökkva sér ekki ofan í málið. Það er að mörgu leyti skiljanlegt. Ástæðan fyrir því að tillaga Tryggingastofnunar er ekki betri varðandi vextina er aftur sú að inneignir geta breyst hratt og ekki síður sú staðreynd að fjöldi fólk taldi ekki skattfrjálsar inneignir í bönkum og vexti af þeim fram til skatts. Það breyttist þegar bankarnir voru skyldaðir til að gefa skattinum þetta upp árlega og farið var að setja upplýsingarnar sjálfvirkt inn á skattframtöl. Tryggingastofnun hefur nú betri upplýsingar og það leiðir vonandi til færri bakreikninga næsta sumar.

Hrein eignaupptaka

Eftir stendur óréttlætið varðandi verðbæturnar, að vextirnir skuli skerða lífeyrisgreiðslur til aldraðra og öryrkja þótt þeir dugi varla til að halda verðgildi eignarinnar óbreyttu. Það er bundið í lögum um almannatryggingar. Að vísu er tæplega 100 þúsund kr. frítekjumark á ári. „Þetta er ranglátt og verið að taka af höfuðstólnum,“ segir Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands. Helgi K. Hjálmsson, formaður Landssambands eldri borgara, vekur athygli á því að eldri borgarar hafi upphaflega lagt fyrir peninga sem búið hafi verið að greiða tekjuskatt af og síðan greitt fjármagnstekjuskatt. „Í þokkabót hefur þetta áhrif á greiðslur frá Tryggingastofnun, meira að segja svokallaðan grunnlífeyri sem allir áttu að fá en nú er tekjutengdur,“ segir Helgi og bætir við: „Þetta er í mínum huga hrein eignaupptaka.“

Áhrifin eru keðjuverkandi, eins og Guðmundur vekur athygli á. Þannig geta niðurgreiðslur á sjúkraþjálfun fallið niður þótt tekjutrygging skerðist aðeins um nokkrar krónur vegna vaxtatekna. Það getur dregið úr möguleikum öryrkja að halda sér í formi og afla tekna og meira verður að sækja til ríkisins.

Kemur í bakið á fólki

„Fólk telur fram eftir bestu samvisku. Þetta kemur illa í bakið á fólki,“ segir Helgi K. Hjálmsson, formaður Landssambands eldri borgara, um bakreikning sem margir lífeyrisþegar fá frá Tryggingastofnun. Hann segir erfitt að áætla vaxtatekjur og ekki hægt að ætlast til þess af lífeyrisþegum. Tryggingastofnun sé hins vegar með nefið niðri í þessu og geti fylgst með frá degi til dags. „Það er verið að krefja fólk um endurgreiðslur á lífeyri sem það hefur tekið við í góðri trú.“
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert