Staðfesting héraðsdóms mun eyða óvissu

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. mbl.is/Jón Pétur

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði í símaviðtali við Reuters fréttastofuna að það muni eyða mikilli óvissu og draga úr erfiðleikum bankanna ef Hæstiréttur staðfestir nýlegan dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um vexti á gengislánum.

Reuters ræddi við Steingrím í framhaldi af ákvörðun matsfyrirtækisins Moody's í gær um að breyta lánshæfishorfum Íslands úr stöðugum í neikvæðar.  Moody's nefndi óvissu um hver áhrif dóms Hæstaréttar frá 16. júní um ólögmæti gengislánanna verði á íslensku bankana. 

Steingrímur benti þá á nýlegan dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að lánþegar skuli greiða íslenska vexti af lánum sínum. „Ef Hæstiréttur staðfestir dóm héraðsdóms snemma í haust þá mun það eyða mestu af óvissunni og gera að verkum að áhrifin verði ekki eins alvarleg og viðráðanlegri,“ sagði Steingrímur (í lauslegri þýðingu mbl.is).

Steingrímur sagði einnig að ef dómur héraðsdóms verði staðfestur þá muni bankarnir hafa fjárhagslegt svigrúm til að ráða við mestan hluta tapsins.  Í því tilviki þyrfti ríkið að leggja bönkunum til allt frá ekki neinu og upp í tugi milljarða.

Þá sagði fjármálaráðherrann að Íslandi gengi betur en búist var við eftir efnahagshrunið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert