Skoðar sokkin skip á kafbátum

Snekkjan vakti að vonum athygli í Reykjavík í gær.
Snekkjan vakti að vonum athygli í Reykjavík í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Auðmaðurinn Paul Allen er nú hér á landi og ætlar sér að kafa niður að flökum tveggja skipa sem sukku úti fyrir ströndum landsins í seinni heimsstyrjöld. Allen hefur það helst unnið sér til frægðar að hafa stofnað tölvurisann Microsoft ásamt Bill Gates og er sagður 37. ríkasti maður heims í tímaritinu Forbes.

Hann er hér á snekkjunni Octopus, en hún er ein stærsta snekkja veraldar. Allen er ekki einn á ferð, en áhöfn Octopus telur sextíu manns, meðal annars öryggisverði sem þjálfaðir eru af bandaríska sjóhernum.

„Þeir hafa áhuga á háhitasvæðum og skipsflökum,“ segir Gréta Gunnarsdóttir, sviðsstjóri alþjóða- og öryggissviðs utanríkisráðuneytisins. Sóttu Allen og félagar um leyfi til að kafa niður að tveimur skipsflökunum undan ströndum landsins og segir Gréta að þeim hafi einnig verið kynntar þær reglur sem þeir verði að hlíta á ferðum sínum.

Kveður Gréta það vera misskilning að um fornleifaleiðangur sé að ræða. Tilgangur köfunarinnar sé ekki eiginleg rannsókn á flökunum þó leiðangursfólk geti vissulega veitt upplýsingar um það sem fyrir augu ber. Segir hún að sækja þyrfti heimild til fornleifarannsókna til Fornleifaverndar ríkisins.

Búin kafbátum og þyrlum

Octopus er vel búin til ævintýraleiðangra á borð við þennan, en um borð eru tveir átta manna rannsóknarkafbátar og tvær þyrlur. Mun ætlunin vera að sigla kafbátunum niður að flökum skipanna og gaumgæfa þau í návígi.

Flökin sem ætlunin er að skoða eru af skipunum SS Shirvan og Alexander Hamilton. Flak fyrrnefnda skipsins fannst nýverið skammt undan Garðskaga. Var skipinu grandað í sömu árás og Goðafossi árið 1944. Alexander Hamilton er talið liggja á botni Faxaflóa og var það bandarískt strandgæsluskip.

Snekkjan Octopus
» Snekkjan vegur um 10.000 tonn. Til samanburðar eru stór íslensk fraktskip um 15.-17.000 tonn.
» Octopus er 126 metra löng og því um 50 metrum lengri en ferjan Herjólfur.
» Hún er þriðja stærsta snekkja heims sem ekki er í eigu þjóðhöfðingja.
Octopus siglir inn sundin við Reykjavík.
Octopus siglir inn sundin við Reykjavík. mbl.is/Jakob Fannar
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert