„Stærsta föstudagsbrekkan“

Þjóðhátíðargestir að koma sér fyrir í brekkunni í gærkvöldi. Hægt …
Þjóðhátíðargestir að koma sér fyrir í brekkunni í gærkvöldi. Hægt var að fylgjast með þjóðhátíðinni gegnum vefmyndavél á mbl.is.

„Þetta er stærsta föstudagsbrekka sem ég hef séð,“ sagði Páll Scheving Ingvarsson, formaður þjóðhátíðarnefndar Vestmannaeyja, um mannfjöldann í Herjólfsdal í gærkvöldi. Hann sagði að mannfjöldinn hafi jafnast á við það sem verið hefur á góðum sunnudögum á þjóðhátíð hingað til.

Páll sagði að hingað til hafi yfirleitt verið flestir í brekkunni í Herjólfsdal á sunnudagskvöldi á Þjóðhátíðum hingað til. Nú hafi föstudagskvöldið verið ámóta fjölmennt. Hann sagði að Björgvin Halldórsson og hljómsveit hafi gert stormandi lukku í gær.

 „Nóttin fór mjög vel fram. Við erum himinlifandi yfir frammistöðu hátíðargesta. Þeir voru til fyrirmyndar og nú erum við að hreinsa og þrífa Dalinn og búa okkur undir næstu nótt,“ sagði Páll. Hann sagði að síðastliðin nótt hafi verið rólegri en reiknað hafði verið með. Gríðarlegur mannfjöldi hafi verið í Herjólfsdal. 

Veður var mjög gott en þoka hefur legið yfir í Vestmannaeyjum í morgun og ekkert flogið. Herjólfur siglir samkvæmt áætlun og taldi Páll að með skipinu kæmu 1.000 til 1.100 manns í dag. Auk þess var áætlað að fljúga til Vestmannaeyja bæði frá Reykjavík og Bakka. Reiknað var með allt að 2.000 manns til Eyja í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert