Kemur ekki að rannsókn SÞ

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, segir að svo virðist sem að á vegum Sameinuðu þjóðanna hafi verið skipaðar tvær nefndir til að rannsaka árás Ísraelsmanna á skip sem flutti varning ætlaðan íbúum á Gaza. Hún var orðuð við formennsku í annarri þeirra er í hvorugri.

„Önnur er á vegum Mannréttindaráðs SÞ og hin á vegum aðalritara SÞ,“ sagði Ingibjörg Sólrún. Hún var orðuð við formennsku í nefndinni sem Mannréttindaráðið ætlaði að skipa.

„Ég geri ekki ráð fyrir að koma neitt að þessu með neinum hætti,“ sagði Ingibjörg Sólrún í samtali við mbl.is. En hefur hún fengið skýringu á því hvers vegna hún var ekki skipuð?

„Nei, það er ekki hægt að ætlast til þess að það sé skýrt út af hverju fólk er ekki valið,“ sagði Ingibjörg Sólrún. „Það eru alltaf mörg nöfn inni í myndinni og heiður að því að vera eitt af þeim. Síðan taka forseti Mannréttindaráðsins og aðalritari Sameinuðu þjóðanna sínar ákvarðanir.“

Fréttastofa Ríkisútvarpsins vitnaði í dagblaðið Jewish Chronicle sem sagði að Ingibjörg Sólrún hafi ekki verið skipuð í nefndina vegna þess að hún hafi skrifað undir stuðning við þá sem skipulögðu ferð flutningaskipsins til Gaza. Ingibjörg Sólrún var spurð hvort hún kannaðist við slíka stuðningsyfirlýsingu af sinni hálfu?

„Nei, ég geri það ekki,“ svaraði Ingibjörg Sólrún. Hún kvaðst hins vegar hafa starfað með samtökum sem heita International Women's Commission for a Just and Sustainable Israeli-Palestinian Peace (Alþjóðleg nefnd kvenna um réttlátan og varanlegan frið milli Ísraels og Palestínu).

Í samtökunum eru bæði konur frá Ísrael og Palestínu og einnig úr alþjóðasamfélaginu. Ingibjörg Sólrún kvaðst frekar gera ráð fyrir að ísraelsk stjórnvöld hafi eitthvað við starf sitt í samtökum þessum að athuga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert