Björk: Magma vinnur með AGS

Björk Guðmundsdóttir á blaðamannafundi á Íslandi fyrir nokkrum vikum
Björk Guðmundsdóttir á blaðamannafundi á Íslandi fyrir nokkrum vikum Árni Sæberg

„Magma Energy er að skoða hvort þeir geti keypt upp allar orkuauðlindir Íslands,“ fullyrti Björk við fréttamann AFP að loknum blaðamannafundi í Helsinki í gærkvöldi. 

Björk er stödd í Helsinki við kynningu á þrívíddarmynd um Múmínálfana en hún samdi og syngur aðallag myndarinnar.

„Þeir hafa þegar sýnt áhuga á að kaupa fimm orkufyrirtæki til viðbótar á Íslandi,“ sagði söngkonan ennfremur í viðtalinu.

„Magma Energy hefur það orðspor á sér að það vinni með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og kaupi upp náttúruauðlindir í löndum sem standi á barmi gjaldþrots.“

Þá gagnrýndi Björk að Magma Energy áformaði mikla stækkun HS Orku til að útvega orku til nýs álvers, en mest af orkunni sem fyrirtækið seldi færi þegar til álvera.

„Við erum með nóg af álverum á Íslandi,“ sagði söngkonan í viðtalinu og lýsti því yfir að Ísland þyrfti að nýta orkuna meira í umhverfisvænni iðnað.

Þá sagði hún að fjárfestingar í fleiri álverum myndu ógna enn frekar bágbornum efnahag Íslands.

„Jafnvel þótt þú hafi gaman af álverum, sem ég geri ekki, hafa hagfræðingar bent á nauðsyn þess að hafa fjölbreytni,“ sagði söngkonan og bætti við að ef verð á áli félli myndi íslenskt efnahagslíf fá stóran skell.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert