Umboðsmaður skuldara hættur

Runólfur Ágústsson
Runólfur Ágústsson mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Runólfur Ágústsson, nýskipaður umboðsmaður skuldara, segir að Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra hafi hringt í sig í morgun og beðið sig að stíga til hliðar. Runólfur kvaðst hafa íhugað þessa ósk og ákveðið að segja af sér, að því er fram kom í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld.

Runólfur var í viðtal við Sigmar Guðmundsson, stjórnanda Kastljóss. Hann sagði ljóst að umboðsmaður skuldara geti ekki sinnt brýnum verkefnum sem bíði embættisins nema með dyggum stuðningi ráðherrans. 

„Ég hef því sent ráðherra bréf þar sem ég hef beðist undan þessu starfi og segi mig raunverulega frá því,“ sagði Runólfur í samtalinu við Kastljós. Hann tók við starfinu í morgun.

Runólfur sagði að ráðherrann hafi kveinkað sér undan pólitísku umræðunni sem hefur verið um ráðningu umboðsmanns skuldara og sagði Runólfur að sér hafi ekki þótti mikill mannsbragur að því. 

Hann kvaðst hafa sótt um starfið því hann hafi haft áhuga á að gegna því. Runólfur sagði að gríðarlega stór verkefni bíði embættisins og nefndi í því sambandi að á níunda hundrað mál bíði óafgreidd og að afgreiða þurfi neysluviðmið, sem sé mjög brýnt.

Félagsmálaráðherra hafði sent Runólfi bréf og óskað frekari skýringa á fjármálum hans, en þau hafa verið talsvert til umræðu frá því að DV birti frétt þar um í síðustu viku. Runólfur sagði í upphafi viðtalsins að hann ætlaði að senda inn umbeðin gögn. Þar sé ekkert sem ekki þoli dagsins ljós og hann hafi ekkert að fela. 

Runólfur sagði að Árni Páll félagsmálaráðherra hafi beðið um upplýsingar allt aftur til ársins 2003, bæði persónulegar og um félög sem hann hafi átt á þessum tíma.

Skuldamál Runólfs bar aldrei á góma í ráðningarferlinu að hans sögn.  Hann gerði grein fyrir því að hann hafi sjálfur lagt fram 100 milljónir króna í reiðufé, aleigu sína á þeim tíma, til kaupa á hlutafé í Sparisjóðabankanum, sem þá hét Icebank.

Eigendur hlutafjárins, sparisjóðir, lánuðu honum fyrir því sem á vantaði en hlutaféð var metið á 300 milljónir. Hann sagði að bankinn hafi átt frumkvæði að viðskiptunum.

Runólfur kvaðst hafa tapað öllu því sem hann lagði í kaupin og hafa orðið fórnarlamb græðgisvæðingarinnar sem ríkti á þessum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert