Allir hafa hækkað eldsneyti

Öll olíufélög hafa nú hækkað eldsneyti og er ódýrasta bensínið á landinu nú á stöðvum Orkunnar, 197 krónur lítrinn og. Þar kostaði bensínið 193 krónur í gær. Dísilolían kostar nú 193 krónur lítrinn hjá Orkunni. Hæst er eldsneytisverðið á stöðvum N1, 198,40 krónur bensín og 193,40 krónur dísilolía.

Að sögn Hermanns Guðmundssonar, forstjóra N1, má rekja hækkunina til mikillar hækkunar á heimsmarkaðsverði á olíu. Sú hækkun stafar af betri horfum á alþjóðamörkuðum.

„Efnahagslífið í Bandaríkjunum og Evrópu er að rétta úr kútnum og þá fylgir yfirleitt aukin eftirspurn eftir olíu. Svo er ágúst stærsti ferðamánuður Evrópubúa, sala á bensíni og dísilolíu eykst mikið og þá vill verðið stökkva af stað.“

Gengi dollars ræður miklu

Hermann segist ekki geta útilokað að eldsneytisverð eigi eftir að hækka eftir því sem líður á mánuðinn. Veiking dollarans dregur hins vegar úr hækkununum. „Ef það verður áframhaldandi veiking á dollar samfara lítilli olíuverðshækkun þá held ég að það verði lítið um verðbreytingar hérna heima.“

Hann segir mikla óvissu vera um hvort olíuverð muni hækka eða lækka í haust. „Sögulega lækkar oftast bensínið á þessum tíma. En um það er erfitt að spá. Ég væri sennilega í vitlausu starfi ef ég gæti spáð með einhverri vissu um þessa þróun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert