Vilja að umsókn verði afturkölluð

Stjórn Ísafoldar, félags ungs fólks gegn ESB-aðild, hefur sent Alþingi bréf þar sem þingmenn eru hvattir til að samþykkja þingsályktunartillögu um að  umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu verði afturkölluð.

Segist félagið styðja tillöguna af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna sívaxandi óánægju í samfélaginu með aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og hinsvegar vegna gjörbreyttra aðstæðna í sambandinu sjálfu, en efnahagur fjölmargra ríkja þar innan riði til falls og margir af helstu fjármálasérfræðingum heimsins telji að gjaldmiðill sambandsins eigi stutt eftir lifað.  

Hvetur Ísafold þingmenn til að samþykkja þingsályktunartillöguna, draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka og gefa þjóðinni tækifæri til þess að kjósa, í þjóðaratkvæðagreiðslu, um hvort réttast sé að sækja á ný um aðild að ESB.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert