Seðlabankinn ekki dómstóll

Seðlabankinn.
Seðlabankinn. Júlíus Sigurjónsson

Allt of mikið er fullyrt að Seðlabankinn hafi vitað að gengistryggð lán væru ólögleg þegar raunin var sú að bankinn hafði í höndum eitt lögfræðiálit þess efnis að ekki væri ólíklegt að svo væri. Á móti stóðu hinsvegar álit ýmissa annarra lögfræðinga sem gengu í aðra átt. Þetta segir í yfirlýsingu frá Seðlabanka Íslands í tilefni spurninga fjölmiðla í kjölfar fréttar DV þess efnis að Seðlabankanum hafi verið kunnugt um ólögmæti gengistryggðra lána þegar vorið 2009.

Í yfirlýsingunni segir að þegar álitið var unnið hafi átt ser stað töluverð umræða á opinberum vettvangi um hugsanlegt ólögmæti gengistryggðra lána. „Bankinn var um þær mundir að skoða möguleika þess að lögaðilar tækju erlend lán í íslenskum krónum í ný gjaldeyrisskapandi fjárfestingarverkefni sem yrðu endurgreidd í erlendri mynt, sbr. fréttatilkynningu dagsetta 6. maí 2009. Í framhaldi af því vildi bankinn kanna hvort vafi léki á lögmæti slíks gjörnings."

Þá segir í yfirlýsingunni að Seðlabanki Íslands sé ekki dómstóll og geti ekki skorið úr um lögmæti gjörninga. Það væri því „í hæsta máta óviðeigandi" ef hann hefði á þessum tíma gefið frá sér einhverjar yfirlýsingar þar að lútandi.

„Seðlabanki Íslands hefur ekki heimild til að afhenda fjölmiðlum umrætt álit án samþykkis viðkomandi lögfræðistofu. Minnisblað aðallögfræðings verður ekki slitið úr samhengi við álitið. Eftir helgi verður skoðað hvort slíkrar heimildar verður aflað," segir í yfirlýsingunni.

Aðallögfræðingur Seðlabankans hafi upplýst lögfræðinga viðskipta-ráðuneytisins um niðurstöður álitsins. „Allar þær stofnanir og ráðuneyti sem véla um fjármálastöðugleika vissu að það væri hugsanlegt að dómstólar kæmust að þeirri niðurstöðu að þessi lán væru ólöglegt. Það var reyndar á allra vitorði. Því hafði nefnd um fjármálastöðugleika sem þessir aðilar eiga sæti í en efnahags- og viðskiptaráðuneyti hefur formennsku í fjallað um málið svo mánuðum skipti áður en dómur hæstaréttar féll. Seðlabankinn getur ekki upp á sitt einsdæmi gefið upplýsingar um starf nefndarinnar."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert