Gæslan sótti tvo menn út á sjó í nótt

Frystitogarinn Höfrungur III
Frystitogarinn Höfrungur III HB Grandi

Landhelgisgæslan hafði í nógu að snúast í nótt. Um níuleytið í gærkvöldi óskaði togarinn Höfrungur III eftir þyrluflugi þar sem einn skipverja hafði fótbrotnað. Togarinn var á Vestfjarðamiðum þegar óhappið varð. Þyrlan TF-Líf var send til móts við skipið og kom að því í Arnarfirði.

Skipið hafði verið á siglingu þegar maðurinn fótbraut sig og hafði hann dottið, en ekki var verið að vinna uppi á dekki þegar slysið varð, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni.

Flogið var með manninn á Reykjavíkurflugvöll og hann fluttur þaðan á Landspítalann með sjúkabíl. Þyrlan var lent með manninn í Reykjavík um klukkan 00.10 í nótt.

Um kortéri síðar barst ósk um aðstoð frá skemmtiferðaskipinu Aþenu, sem var suðvestur af Reykjanestá á leið til Vestmannaeyja frá Reykjavík. Um borð var veikur maður. Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var þá sprungin á tíma, þ.e. mátti ekki fljúga meira án þess að hvíla sig fyrst og var því björgunarbátur frá Grindavík sendur að skipinu.

Það tók um klukkutíma að sækja manninn úr skipinu, en hann var þá orðinn talsvert mikið veikur. Sjúkrabíll flutti manninn til Reykjavíkur en læknir kom frá Keflavík til að vera meðferðis þangað. Var maðurinn bæði þjáður af verkjum í kviðarholi og var með afar lágan blóðþrýsting. Hann var kominn á Landspítalann um klukkan tuttugu mínútur fyrir fjögur í nótt og var ekki talinn í lífshættu þegar þangað var komið.

218 íslensk skip eru nú á sjó og 85 erlend eru á vöktunarsvæði Landhelgisgæslunnar, þótt ekki séu þau öll við landið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert