Slökkvibíll frá Bakka til Húsavíkur

Farþegar ganga inn í flugstöðina á Aðaldalsflugvelli við Húsavík sl. …
Farþegar ganga inn í flugstöðina á Aðaldalsflugvelli við Húsavík sl. föstudag en þá var Akureyrarflugið flutt þangað. mbl.is/Atli

Flugfélag Íslands hefur farið þess á leit við Isavia ohf. að flugvöllurinn á Húsavík verði opnaður í dag fyrir flugvélar Flugfélagsins.  Isavia hefur samþykkt að verða við þessari beiðni og hefur því flutt slökkvibifreið sína frá flugvellinum á Bakka til Húsavíkur. 

Flugfélag Íslands hefur boðað flug frá Reykjavík til Húsavíkur klukkan 14 í dag og síðan tvær ferðir til viðbótar síðdegis. Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna lítur á það sem skýrt  verkfallsbrot. Lögðu slökkviliðsmenn af höfuðborgarsvæðinu af stað til Húsavíkur í gærkvöldi og ætla sér að stöðva flugið þangað.

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna telur að ákvörðun um að flytja flug frá Akureyri til Húsavíkur sé skýrt verkfallsbrot.  Slökkviliðsmenn af höfuðborgarsvæðinu og slökkviliðsmenn frá Akureyri ætla að koma í veg fyrir að hægt verði að fljúga til Húsavíkur meðan á verkfalli stendur.

Isavia segir í tilkynningu, að  viðbúnaðarþjónustunni á Húsavíkurflugvelli verði sinnt af starfsmönnum Isavia sem hafi fengið alla þá þjálfun sem krafist er. Ekki verði tekinn mannafli af Keflavíkurflugvelli né Reykjavíkurflugvelli.  Flugmálastjórn Íslands hafi samþykkt aukna þjónustu Isavia á Húsavíkurflugvelli hvað varðar slökkvi- og björgunarþjónustu.
 
Þá tekur Isavia fram, að ekki verði slakað á flugöryggi, hvorki í dag né aðra daga. Verkfallsaðgerðir slökkvimanna sé  vegna kjaradeilu Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna við launanefnd sveitarfélaga, Isavia sé ekki aðili að þessari deilu.  Starfsmenn Isavia á flugvellinum á Húsavík, sem muni viðbúnaðarþjónustu, sé ekki félagar í LSS og því ekki í verkfallsaðgerðum.  
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert