Gylfi algjörlega ótrúverðugur

Þór Saari
Þór Saari

„Ég gef lítið fyrir þessi svör Gylfa. Þetta voru upplýsingar sem beðið var um og hann upplýsti ekki um mjög mikilvæg atriði,“ segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.

Hann gefur lítið fyrir útskýringar Gylfa Magnússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, á því hvers vegna hann hafi ekki upplýst þingheim um vitneskju sína um ólögmæti myntkörfulána.

„Það er einfaldlega svona sem stjórnmálamenn bjarga sér út úr klemmu. Þetta er bara klassísk leið, menn eru með einhverjar upplýsingar í höndunum sem geta komið þeim eða ráðuneyti þeirra illa og þá svara þeir bara út í hött.“

Hann segir þó að sem betur fer gerist það sjaldan að í ljós komi að ráðherrar hafi farið með rangt mál í mjög mikilvægum atriðum en það hafi gerst í þessu tilfelli.

„Hann er algjörlega ótrúverðugur sem ráðherra þannig að við teljum að hann eigi ekki að vera ráðherra áfram. Við teljum að hann eigi að segja af sér. Þetta mál allt saman sýnir alveg greinilega að hann er vanhæfur sem ráðherra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert