Fréttaskýring : Tímabært að skoða stöðu drengja

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Menntaráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum 11. ágúst sl. að skipa sérstakan starfshóp fulltrúa skólastjóra, kennara, foreldra og sérfræðinga til að leita leiða til þess að bæta námsárangur drengja í grunnskólum borgarinnar. Þá var samþykkt að formaður hópsins yrði Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í menntaráði, en einnig á sæti í honum Óttar Proppé, borgarfulltrúi Besta flokksins.

Tillaga um skipun starfshópsins var áður lögð fram á fundi menntaráðs 23. júní sl. af fulltrúum Samfylkingarinnar og Besta flokksins og hún samþykkt með öllum atkvæðum í ráðinu nema fulltrúa Vinstri-hreyfingarinnar – græns framboðs sem lagði fram aðra tillögu þess efnis að markmið hópsins yrði einkum að leita leiða „til að uppræta áhrif staðlaðra kynjamynda á tækifæri og aðstæður barna til að þroskast og mennta sig“. Þeirri tillögu var hins vegar frestað og síðan vísað til mannréttindaráðs á fundinum 11. ágúst.

Munur strax í 1. bekk

Vinna starfshópsins mun einkum snúa að því að fara yfir fræðileg gögn sem tengjast viðfangsefni hans, m.a. gögn frá móðurskólaverkefnum í Vesturbæjarskóla og Hamraskóla þar sem markmiðið var að bæta námsárangur drengja á fyrsta stigi grunnskóla. Þá mun hópurinn kynna sér reynslu starfsfólks grunnskóla Reykjavíkur af aðgerðum til að koma til móts við þarfir drengja í skólastarfinu.

Samkvæmt könnun sem unnin var fyrir menntasvið Reykjavíkurborgar af fræðimönnum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands þótti 67% drengja í 1. bekk grunnskóla gaman að læra í skólanum en 83% stúlkna. Sama var upp á teningnum þegar spurt var um lestur, en 65% sjö ára drengja fannst gaman að lesa í skólanum á móti 74% stúlkna. Í 3. bekk mældist einnig marktækur kynjamunur á námsáhuga þar sem stúlkur voru ánægðari en drengir.

„Ég skrifaði blaðagrein um þessi mál á síðasta ári og fékk mjög mikil viðbrögð við henni. Ekki síst frá foreldrum sem höfðu áhyggjur af sonum sínum og að þeim liði ekki nógu vel í skólunum sínum. Ég tel einfaldlega að það sé mjög tímabært að viðurkenna að það er munur á stelpum og strákum í skólakerfinu og að það felur engan veginn í sér að verið sé að gera á einhvern hátt á hlut kvenna eða stúlkna þó að fjallað sé um málefni stráka og eitthvað gert í þeirra málum eins og sumir virðast telja,“ segir Þorbjörg Helga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert