Tilkynningaskylda ofar þagnarskyldu

Karl Sigurbjörnsson, biskup.Íslands.
Karl Sigurbjörnsson, biskup.Íslands. mbl.is/Ómar

Fyrirmæli barnaverndarlaga taka af öll tvímæli um tilkynningaskyldu presta að hún gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu. Gengið er út frá því að velferð barnsins hafi forgang. Kemur þetta fram í yfirlýsingu biskups Íslands.

Hann segir að þetta sé í fullu samræmi við hina kristnu siðfræði og mannsskilning sem setur barnið og velferð þess fremst. 

Geir Waage, sóknarprestur í Reykholti, segir að þagnarskylda presta við sóknarbörn sín sé algjör og þar sé enginn millivegur til. Hann segir að prestar geti ekki beygt sig undir barnaverndarlög þar sem segir að tilkynningarskylda sé æðri siðareglum.

Biskup Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu af þessu tilefni. Þar segir meðal annars:

Samkvæmt starfsmannalögum eru prestar eins og allir opinberir starfsmenn bundnir trúnaði og þagnarskyldu um það sem þeir verða áskynja í starfi og leynt skal fara. En jafn ljóst er að þeim ber að lúta fyrirmælum barnaverndarlaga.

Í skriftum ber presturinn þá ábyrgð að hlusta á syndajátningu einstaklings „í Guðs stað“ og boða iðrun og fyrirgefningu syndanna í Jesú nafni. Þegar einstaklingur leitar prests til að skrifta, það er játa synd sína og þiggja fyrirgefningu syndanna eins og af Guðs munni, þá á það sér undanfara í samtali þar sem iðrun og yfirbót er mikilvæg forsenda.

Þó að presturinn sé bundinn trúnaði sem hann má ekki bregðast, þá getur skriftarbarnið ekki bundið samvisku prestsins. Íslensk lög og kirkjuréttur hafa gengið út frá því um langan aldur. Presti sem verður áskynja í skriftum að lífi eða heill annarra er ógnað er skyldugt að leiða viðkomandi fyrir sjónir að honum beri skylda til að koma í veg fyrir það og að prestinum sé skylt að tilkynna slíkt ef viðkomandi gerir það ekki sjálfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert