Haustið sýnir klærnar

Gránað hefur í fjöll norðanlands og austan. Myndin er úr …
Gránað hefur í fjöll norðanlands og austan. Myndin er úr safni. mbl.is/Jón Sigurðsson

Veðrið sýnir greinileg merki um að það haustar að þótt tíminn sé ekki alveg komin samkvæmt dagatalinu. Hitinn fór niður í tvær gráður á Hellu og í Básum í nótt og snjóað hefur í fjöll á norðanlands og austan síðustu tvær nætur.

Fólki hefur brugðið við kuldann á suðvesturlandi vegna þess hversu hlýtt hefur verið. Hrafn Guðmundsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að þetta sé skammvinnt norðanskot.

Reiknað er með að eitthvað hlýni aftur á morgun á suðvestanverðu landinu og það verði ágætis veður og þegar norðanáttin gengur niður eftir helgi hlýnar einnig á norðanverðu landinu.

Kaldast er í dag á Norður- og Norðausturlandi, um 5 stig. Víða hefur rignt í nótt og í gær og gránaði í fjöll, bæði í nótt og fyrrinótt.

Þannig er Hlíðarfjall við Akureyri grátt ofan við 700-800 metra hæð. 

Í daglegu tali er rætt um að september, október og nóvember séu haustmánuðirnir, þannig að skammt er í að haustið komi samkvæmt dagatalinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert