ESB styrkir rannsókn á upplifun

Marina Candi.
Marina Candi.

Rannsóknarmiðstöð Háskólans í Reykjavík í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum hlaut nýverið um 730 þúsund evra styrk, jafnvirði um 110 milljóna króna, úr 7. rammaáætlun Evrópusambandsins. Styrkurinn er veittur til rannsóknar á því hvernig þjónustufyrirtæki geta nýtt upplifun til að skapa sér samkeppnisforskot.

Samkvæmt upplýsingum frá Háskólanum í Reykjavík er rannsóknin samstarfsverkefni skólans, Háskólans í Nottingham og þriggja þjónustufyrirtækja. Marina Candi, fræðimaður við HR, leiðir þetta þriggja ára verkefni sem byggir á hugmynd sem hún þróaði ásamt Johann Riedel við Háskólann í Nottingham. 

HR segir, að mörg þekkt fyrirtæki hafi náð góðum árangri með því að gera upplifun að kjarna þess sem þau selja. Disney sé gott dæmi um slíkt fyrirtæki en það selji aðgang að skemmtigörðum en viðskiptavinurinn kaupi í raun aðgang að upplifun. Viðfangsefni rannsóknarinnar sé minni fyrirtæki, sem flokkist ekki undir skemmtunar- eða afþreyingariðnaðinn.

Rannsakað verður hvort og hvernig slík fyrirtæki geti sviðsett upplifanir og hvaða árangurs þau geta vænst. Þetta verður gert með því að fylgja þremur þjónustufyrirtækjum eftir í þrjú ár. Fyrirtækin verða einskonar tilraunastofur þar sem niðurstöður rannsókna verða prófaðar og aðferðir til að sviðssetja upplifanir verða þróaðar.

Vegna rannsóknarinnar verður á næstu vikum ráðið í stöðu doktorsnema á sviði nýsköpunar við Háskólann í Reykjavík.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert