Fréttaskýring: Sótt um styrki til að breyta stjórnsýslunni

ESB veitir Íslandi mikla aðstoð í formi peninga og ráðgjafar …
ESB veitir Íslandi mikla aðstoð í formi peninga og ráðgjafar til að gera stjórnsýslunni betur grein fyrir því hverju hún þurfi að breyta. mbl.is/Ómar

Hinn 17. ágúst var haldinn ráðuneytisstjórafundur þar sem m.a. var fjallað um stuðningsaðgerðir Evrópusambandsins í umsóknarferli Íslands sem samþykkt var á síðasta fundi ráðherranefndar um Evrópumál.

Í framhaldi af fundinum sendi Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, tölvupóst á samstarfsfólk sitt þar sem hún kallaði eftir verkefna-umsóknum um IPA styrki. IPA er eitt af verkfærum ESB til að aðstoða lönd sem sótt hafa um aðild áður en til aðildar þeirra kemur.

Snýr að tvennu

Þá kemur fram í skipuriti um fyrirkomulag IPA, sem sent var sem viðhengi tölvupóstsins, að TAIEX-sérfræðingar séu á leið til landsins en TAIEX er stofnun sem hefur það meginhlutverk að miðla sérfræðiaðstoð til ríkja við að innleiða eða undirbúa innleiðingu regluverks ESB í lög ríkja en einnig að aðstoða við mögulegar skipulagsbreytingar í formi ráðgjafar.

Verkefnaumsóknir til IPA fela í sér grófar hugmyndir ráðuneyta um verkefni sem þau telja ástæðu til að verði hluti af landsáætlun Íslands sem gæti hlotið styrk úr IPA. Landsáætlun IPA snýr að tvennu. Annars vegar að styrkja stjórnsýsluna á þeim sviðum sem þörf er á til þess að uppfylla þær samningsskuldbindingar sem íslenska ríkið tekur á sig á endanum ef til aðildar að Evrópusambandinu kemur. Hins vegar að hjálpa Íslendingum við áætlanagerð, að ákveða hvernig standa eigi að dreifingu styrkja úr evrópskum sjóðum hérlendis ef Ísland gengur inn í ESB.

Fimm til tíu umsóknir

Sem dæmi um þetta má taka útfærslu sóknaráætlunarinnar 20/20 og vinnumarkaðssjóð ESB til að efla íslenskan vinnumarkað og vinna gegn atvinnuleysi. Ekki liggur þó fyrir hvaða verkefni verður sótt um stuðning við þar sem einungis á bilinu fimm til tíu umsóknir verða sendar samkvæmt ofangreindum tölvupósti Ragnhildar. Hver umsókn getur þó falið í sér fleiri en eina ábendingu. Sem dæmi geta borist nokkur verkefni á mismunandi sviðum tölfræði á vegum Hagstofunnar. Þær má þó sameina í eina áætlunartillögu um tölfræði sem getur rúmað nokkur verkefni. Þannig geta umsóknirnar fimm til tíu verið nokkuð rúmar á hinu breiða verksviði stjórnvalda.

Þá mun forsætisráðherra skipa sérstakan stoðhóp IPA á Íslandi til að velja úr umsóknum ráðuneytanna en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur hópurinn ekki verið skipaður þó svo að frestur ráðuneyta til að skila inn umsóknum hafi runnið út sl. föstudag.

Samningsafstaða mótuð

Utanríkisráðuneytið lítur á TAIEX sem aðstoð við íslenska stjórnsýslu til að greina nánar hvað felst í löggjöf Evrópusambandsins til að undirbúa samningaviðræður og til greiningar á því hvort og þá hvaða breytingar þurfi mögulega að gera á löggjöf og stjórnsýslu. Hvort tveggja aðstoðar samningamenn Íslands við mótun samningsafstöðu landsins á einstökum sviðum.

Á þann hátt verður kannað hvort einhver núningur kunni að myndast á milli íslenskrar og evrópskrar löggjafar sem leysa þurfi í samningaviðræðum.

Aðlögun eða aðstoð?

Á vefsíðu TAIEX segir að meginhlutverk þess sé að hjálpa ríkjum við að innleiða regluverk Evrópusambandsins í eigin lög. Þannig hafa margir bent á, og þá sérstaklega Jón Bjarnason í viðtali við Morgunblaðið í gær, að aðlögunarferlið sé nú þegar hafið þó svo að íslenska þjóðin hafi ekki greitt atkvæði um aðild sína að ESB.

Sérfræðingar utanríkisráðuneytisins líta þó ekki á TAIEX aðstoðina sem innflutning á sérfræðingum til að segja stjórnsýslunni hvernig hlutirnir eigi að vera, heldur sem hjálp við að koma auga á þau mál sem mögulega taka þarf upp í samningaviðræðunum við ESB, auk þess að greina hluti með sem nákvæmustum hætti þannig að sjá megi hvað felist í ESB-regluverkinu á hverju sviði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert