Hanna Birna: Íbúar geta ekki tekið meira á sig

Hanna Birna Kristjánsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, segir að íbúar borgarinnar geti einfaldlega ekki bætt við sig þeim tugþúsunda útgjöldum sem það þýðir fyrir meðalfjölskyldu í Reykjavík að hækka á einu bretti gjaldskrár Orkuveitunnar um tugi prósentna.

 Í grein sem Hanna Birna ritar í Morgunblaðið í dag segir hún að  stefna borgarstjórnar hafi verið skýr varðandi Orkuveitu Reykjavíkur. Hún hafi falist í því að leysa skammtímavanda fyrirtækisins með umfangsmiklum hagræðingaraðgerðum, en hófstilltum og sanngjörnum gjaldskrárhækkunum sem dreift yrði á næstu 3 - 5 ár. 

„ Af samtölum við lánveitendur Orkuveitunnar vissu bæði stjórnendur fyrirtækisins og Reykjavíkur að slík áætlun fullnægði óskum þeirra og þeir hefðu skilning á þeirri afstöðu eigenda að íbúar gætu ekki einir og sér tekið að sér að leysa skammtímavanda fyrirtækisins með hækkun um tugi prósentna sem öll tæki gildi á sama tíma.  

 Jafnframt var öllum ljóst að langtímavandi fyrirtækisins yrði leystur með því einu að eigendur komi sér saman um að minnka efnahagsreikning Orkuveitunnar og þar með draga úr umsvifum fyrirtækisins.  Að reyna að teja íbúum nú trú um það að lausnin felist í einhliða hækkun um tugi prósentna er því ekki aðeins ósanngjörn gagnvart íbúum vegna þess hvaða áhrif það hefur á þeirra fjárhag heldur einnig vegna þess að þeir eiga skilið varanlegri lausnir af hálfu kjörinna fulltrúa."

Hanna Birna hvetur núverandi meirihluta til að hraða vinnu sinni, vanda til verka og horfast strax í augu við það að íbúar geta einfaldlega ekki bætt við sig þeim tugþúsunda útgjöldum sem það þýðir fyrir meðalfjölskyldu í Reykjavík að hækka á einu bretti gjaldskrár Orkuveitunnar um tugi prósentna.

„Þeir geta heldur ekki bætt í heimilisbókhaldið tugþúsundahækkun vegna hækkana á öðrum gjaldskrám, svo ekki sé nú talað um hækkun skatta."

 Hægt er að lesa grein Hönnu Birnu í heild hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert