Í 4 vikna gæsluvarðhald

Lögreglumenn leiða sakborninginn inn í dómhús Héraðsdóms Reykjaness.
Lögreglumenn leiða sakborninginn inn í dómhús Héraðsdóms Reykjaness. mbl.is/Jakob Fannar

Héraðsdómur Reykjaness hefur fallist á kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um að 23 ára gamall karlmaður sæti gæsluvarðhaldi til 24. september. Maðurinn er grunaður um að hafa orðið Hannesi Þór Helgasyni að bana þann 15. ágúst sl.

Ættingjar Hannesar voru við dómhús Héraðsdóms Reykjaness og fylgdust með þegar maðurinn var leiddur inn í húsið. Lögreglan lagði fram kröfu um fjögurra vikna gæsluvarðhald og á hana var fallist. Úrskurðurinn hefur verið kærður til Hæstaréttar. 

Ný gögn í málinu gerðu það að verkum að rökstuddur grunur var talinn vera fyrir hendi um að maðurinn eigi aðild að andláti Hannesar. Maðurinn var handtekinn í gær og var gerð ítarleg húsleit á heimili mannsins og hald lagt á muni sem þar var að finna og tengjast hugsanlega rannsókninni.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is var einnig lagt hald á bíl mannsins og er hann nú í rannsókn. 

Lögreglan segir, að ekki sé unnt að greina nánar frá þessum nýju gögnum að öðru leyti en því, að þau séu árangur vettvangsvinnu tæknideildar lögreglunnar. Niðurstöður úr lífsýnum, sem send voru til Svíþjóðar liggja ekki fyrir en hugsanlegt sé að einhverjar bráðabirgðaniðurstöður liggi fyrir jafnvel í næstu viku.

Umræddur maður var handtekinn fyrst skömmu eftir morðið en látinn laus eftir að hafa verið í haldi lögreglunnar yfir nótt. Hann hafði áfram réttarstöðu sakbornings eins og fleiri, sem rannsóknin hefur beinst að.  Maðurinn tengist unnustu Hannesar Þórs og samkvæmt upplýsingum mbl.is birti hann m.a. myndskeið á vefnum YouTube á síðasta ári þar sem hann ávarpaði konuna og játaði henni ást sína.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert