Verkalýðshreyfing með gervitennur

Vilhjálmur Birgisson.
Vilhjálmur Birgisson.

Á fundi með forseta Alþýðusambands Íslands í síðustu viku líkti formaður Verkalýðsfélags Akraness verkalýðshreyfingunni við aldraða manneskju, sem tæki fölsku tennurnar út úr sér á kvöldin og setti þær í glas; slík manneskja væri gjörsamlega bitlaus.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, lýsir fundinum á vef félagsins. Segist hann hafa sagt við Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ, að gríðarleg gjá hafi myndast á milli hins almenna félagsmanns innan ASÍ og forystu hreyfingarinnar. Þessi gjá hafi myndast vegna þeirrar linkindar sem ríkt hafi í verkalýðshreyfingunni um alllanga hríð.

„Hreyfingin þarf að berjast af alefli fyrir bættum kjörum okkar félgsmanna og þarf að sýna tennurnar í samskiptum sínum við atvinnurekendur og ríkisvaldið," segir á vef félagsins. Verkalýðshreyfingin þurfi að vinna traust og trúnað sinna félagsmanna á nýjan leik og það verði ekki gert nema með því að hreyfingin sýni mátt sinn og kraft og berjist af fullum heilindum fyrir lagfæringu á kjörum félagsmanna sinna.

Þá segir, að komið hafi skýrt fram frá stjórn Verkalýðsfélags Akraness, að félagið muni ekki taka þátt í svokallaðri þjóðarsátt í anda þess sem gert var í stöðugleikasáttmálanum svonefnda. „En þar gekk ekkert nema eitt eftir eins og áður hefur komið fram, að launafólk þurfti að fresta sínum launahækkunum."

Vefur Verkalýðsfélags Akraness 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert