2559 slösuðust í umferðinni í fyrra

Á síðasta ári slösuðust 2559 einstaklingar í umferðinni, samkvæmt útreikningum Sjóvár. Er það 2,7% fækkun frá árinu á undan. Alls fækkaði umferðaróhöppum um 15% milli ára.

Um er að ræða útreikninga Sjóvár út frá markaðshlutdeild félagsins á tryggingamarkaði.

Bílum í umferðinni fækkaði um 2,2% árið 2009 miðað við árið 2008, samkvæmt upplýsingum frá Umferðarstofu. Sjóvá segir, að það eitt og sér skýri hins vegar ekki alfarið fækkun tjóna á síðasta ári og segir, að  tölfræði Sjóvá yfir lengra tímabil sýni að fylgni sé á milli tjónatíðni í umferðinni og efnahagsástands hverju sinni. Þegar uppsveifla og spenna sé í þjóðfélaginu virðist það smita inn á umferðina og hafa áhrif á aksturslag ökumanna með þeim hætti að tjónum í umferðinni fjölgar.

Þá hafi hækkun eldsneytisverðs áhrif á aksturslag og einnig geti veðrátta getur haft áhrif.

Svonefnd bakktjón, þegar bílum er ekið aftur á bak, er algengasta orsök umferðartjóna hér á landi eða 31% allra tjóna. Næst flest tjón  verða með þeim hætti að ökumaður ekur á kyrrstæðan hlut eða í 21% tilfella.

Slys á fólki verða í flestum tilfellum þegar bíll lendir út af vegi, eða í 29% tilfella.   Aftanákeyrslur voru önnur helsta orsök slysa í umferðinni árið 2009 eða í 26% tilfella.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert