Fréttaskýring: Óbreytt afstaða til ESB

Höfuðstöðvar Evrópusambandsins.
Höfuðstöðvar Evrópusambandsins. YVES HERMAN

Litlar líkur virðast á að tillaga um að Ísland dragi umsókn sína um aðild að Evrópusambandinu til baka verði samþykkt á Alþingi. A.m.k. sex þingmenn stjórnarandstöðunnar ætla ekki að styðja tillöguna. Það þýðir að níu þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs verða að styðja tillöguna ef hún á að ná fram að ganga. Ólíklegt er að það gangi eftir. Ögmundur Jónasson, sem hefur verið gagnrýninn á margt í stefnu Evrópusambandsins, ætlar ekki að styðja hana.

Þegar greidd voru atkvæði um þingsályktunartillögu um aðild Íslands að Evrópusambandinu 16. júlí í fyrra sögðu 33 þingmenn já, 28 sögðu nei og tveir sátu hjá. Rétt fyrir þinglok í vor kom fram tillaga frá þingmönnum allra flokka nema Samfylkingar, um að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu verði dregin til baka. Fyrsti flutningsmaður er Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks.

Unnur Brá er ekki búin að mæla fyrir tillögunni og hún er því ekki komin til nefndar. Mörg mál liggja fyrir haustþinginu og ekki er öruggt að tillagan komi til atkvæða. Bæði þingmenn í stjórnarflokkunum og stjórnarandstöðu hafa hins vegar lagt áherslu á að tillagan verði afgreidd.

A.m.k. sex þingmenn stjórnarandstöðu styðja umsóknina

Fimm þingmenn stjórnarandstöðunnar studdu tillögu um að Ísland sækti um aðild að ESB. Þetta eru Ragnheiður Ríkharðsdóttir Sjálfstæðisflokki, Þráinn Bertelsson utan flokka, Birkir Jón Jónsson, Guðmundur Steingrímsson og Siv Friðleifsdóttir þingmenn Framsóknarflokks. Allir þessir þingmenn ætla að greiða atkvæði gegn tillögu um að hætt verði við umsóknina. Það sama ætlar Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, að gera en hann greiddi hins vegar atkvæði gegn umsókninni á sínum tíma. Að því er best er vitað er Þór einn um að hafa skipt um skoðun.

Fimm þingmenn VG greiddu atkvæði gegn umsókn Íslands um aðild að ESB fyrir rúmlega einu ári. Þetta eru Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason, Jón Bjarnason, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Þuríður Backman. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sat hjá, en hún er núna í barneignarfríi. Varaþingmaður hennar, Ólafur Þór Gunnarsson, sagði í samtali við Morgunblaðið að hann hefði ekki ákveðið hvort hann kæmi til með að styðja tillöguna. Hann sagðist ætla að hlusta á umræður um tillöguna áður en hann gerði upp hug sinn. Hann tók fram að honum þætti eðlilegt að tillagan kæmi til atkvæða á þinginu.

Bæði Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson studdu tillögu um að Ísland sækti um aðild að ESB í fyrra. Ögmundur sagði í samtali við Morgunblaðið að hann stæði við þá afstöðu sína að látið yrði reyna á umsóknina og að samningurinn yrði síðan borinn undir þjóðina. „Ég hef jafnframt lýst því yfir að ég horfi með áhyggjum á það ef viðræður þróast yfir í aðlögun,“ sagði Ögmundur.

Forsendur hafa breyst á árinu

Í þingsályktunartillögu Unnar Brár Konráðsdóttur, um að Ísland hætti við að sækja um aðild að ESB, segir að forsendur hafi breyst frá því Alþingi samþykkti að sækja um aðild. Evrópusambandið standi frammi fyrir stærri úrlausnarmálum í efnahagsmálum en það hafi gert um langa hríð. Spenna sé á myntsvæðinu sem valdi því að fram séu komnar kröfur um frekari samruna. Sú skoðun stuðningsmanna aðildar hér á landi að upptaka evru tryggi efnahagslegan stöðugleika eigi ekki við rök að styðjast í ljósi erfiðleika sem Grikkland, Ítalía, Spánn, Portúgal og Írland glími við.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert