Íhugi þjóðaratkvæði um NATO

Merki Atlantshafsbandalagsins NATO.
Merki Atlantshafsbandalagsins NATO.

Ögmundur Jónsson, þingmaður og ráðherra Vinstri grænna, hyggst kanna hljómgrunn fyrir því innan sinna raða hvort efna eigi til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, NATO. Ögmundur leggur áherslu á að málið sé á frumstigi en hann kveðst vongóður um stuðning.

Ögmundur er sem kunnugt er aftur kom inn í ríkisstjórnina en það var fyrir fimm vikum sem hann lýsti yfir þeirri skoðun sinni í samtali við mbl.is að þjóðin ætti að fá að kjósa um aðild Íslands að NATO, í kjölfar uppljóstranna Wikileaks um stríðsreksturinn í Afganistan.

En telur Ögmundur svigrúm til slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu á þessum tímapunkti?

„Ég held að það sé svigrúm til að ræða það við félaga mína í þingflokki og þess vegna í ríkisstjórn hvort menn telji grundvöll fyrir slíku. Ég stend ekki einn fyrir slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég var að lýsa yfir minni persónulegu skoðun og veit ekki hver hljómgrunnur yrði hjá öðrum. Mér finnst það hins vegar góð hugmynd að ganga úr skugga um það.“

- Hvernig líta flokksbræður þínir á málið?

„Ég hef grun um að þetta njóti víðtæks stuðnings innan Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs þó ég byggi það einvörðungu á getgátum en ekki neinni vísindalegri athugun. Ég gef mér að fólk sem fylgi VG að málum vilji gjarnan að Ísland standi utan hernaðarbandalaga. Ég held að það sé almennt og útbreitt viðhorf.

Mér finnst sjálfsagt að vilji til þessa verði kannaður.“

- Hversu sáttur hefurðu verið við utanríkisstefnu stjórnarinnar á þeim tíma sem þú hefur staðið utan hennar?

„Ég tel að þessi ríkisstjórn hafi fylgt miklu skaplegri stefnu í utanríkismálum en forverar hennar hafa gert. Ég er ekki í neinum einasta vafa um að svo hafi verið.

Það hefur dregið úr viðleitni til að fara inn í hernaðarleg samvinnuverkefni eins og var hér áður og aðrar áherslur uppi. Þannig að ég tel að við höfum verið á réttri leið hvað þetta snertir. Ég nefni líka afstöðu til Palestínu sem dæmi,“ segir Ögmundur Jónasson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert