Tugþúsundir á Ljósanótt

Tugþúsundir sóttu Ljósanótt í Reykjanesbæ að þessu sinni að sögn …
Tugþúsundir sóttu Ljósanótt í Reykjanesbæ að þessu sinni að sögn aðstandenda. Solvi Logason

Dagskrá Ljósanætur hefur farið vel fram og tugþúsundir bæjarbúa og gesta skemmtu sér vel að sögn aðstandenda hátíðarinnar. Kom ekki að sök að veðurguðirnir hafi hamast á hátíðarsvæðinu með roki og rigningu, eins og segir í tilkynningu frá hátíðinni. Lét fólk veðrið ekki aftra sér frá því að skemmta sér á hátíðinni og stóðst öll dagskrá þrátt fyrir að á móti blési.

Dagskrá hátíðarinnar stóðst öll þrátt fyrir veður, sem fólk lét hafa lítil áhrif á sig. Eitthvað færri voru á hátíðinni í ár en undanfarin ár og er það að mati aðstandenda örugglega vegna veðursins.

Dagskrá gærdagsins náði hápunkti sínum með flugeldasýningu og vildi þá svo heppilega til að veðrið lægði rétt fyrir sýningu. Þar áður léku á stóra sviðinu Hjaltalín og Páll Óskar, Mannakorn og Ellen Kristjánsdóttir og Suðurnesjasveitin Hjálmar.

Mikill fjöldi gesta fyllti miðbæinn upp úr hádegi og mettþáttaka var í hinni árlegu árgangagöngu niður Hafnargötuna og að hátíðarsvæði þar sem formleg dagská hófst.

Hvert einasta rými við Hafnargötuna og í nágrenni hátíðarsvæðisins er notað fyrir listsýningar og menningarviðburði ýmiskonar. Í sölutjöldum er verið að selja handverk og á hátíðarsviði sem stóð við Ægisgötuna voru útitónleikar bæði í gærkvöldi og á föstudagskvöld. Þá var boðið upp á kjötsúpu sem þúsundir nýttu sér.

Ljósanótt lýkur í dag með hátíðartónleikum í Stapa þar sem fram koma kórar og söngfólk af svæðinu ásamt hljómsveit.

Flugeldasýningin.
Flugeldasýningin. Solvi Logason
Tónleikar á Ljósanótt.
Tónleikar á Ljósanótt. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert