Liggur ekkert á að semja um Icesave

Ásmundur Einar Daðason.
Ásmundur Einar Daðason.

Tveir þingmenn Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir, lýstu þeirri skoðun á Alþingi í dag, að ekkert lægi á að semja um Icesave.

Þetta kom fram eftir að Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði Ásmund Einar hvort hann væri sammála yfirlýsingum Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, um að mikið tjón hefði orðið vegna tafa á Icesave-samningum.

Ásmundur Einar sagði, að Íslendingar hefðu sparað sér tugi milljarða króna í vaxtakostnað með því að semja ekki um Icesave. Sagðist hann því ekki deila skoðun Árna Páls um tjón af völdum tafanna.

„Við erum að sjá það að Evrópusambandið sjálft dregur í efa ríkisábyrgð á innistæðutryggingar," sagði Ásmundur Einar. „Við eigum að vera óhræddir að halda uppi málstað íslands í þessu máli og ekki að tala hann niður... Það á ekki að vera undir svipuhöggum Evrópusambandsins," sagði Ásmundur Einar.  

Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, sagði að fullyrðingar um nauðsyn þess að ganga frá Icesave væru ekki í samræmi við stöðuna. Sagði hún að hagkerfið væri fullt af erlendu fjármagni sem vildi út. „Icesave-samningur mun engu breyta þar um nema ýta undir útþrá erlendra fjárfesta," sagði hún.

Össur Skarphéðinsson,  utanríkisráðherra, lýsti þeirri skoðun, að leysa eigi Icesave-deiluna með samningum og að mikilvægt væri þingið allt geri það. 

Össur sagðist telja, að ef málið færi gegnum Eftirlitsstofnun Evrópu og síðan dómstóla kynni að verða gerð atlaga að neyðarlögunum. Þau myndu væntanlega halda en meiri óvissa væri um hvort forgangsákvæði Icesave-samninganna myndi halda. Það gæti leitt til þess að aðrir kröfuhafar fengju meira í sinn hlut úr þrotabúi Landsbankans og minna yrði eftir upp í það, sem Íslendingar þyrftu í samningum að standa skil á og hlaupa á mörg hundruð milljörðum í stað 1-200 milljarða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert