LÍÚ mun vinna að útfærslu samningaleiðar

Landssamband íslenskra útvegsmanna mun áfram vinna með stjórnvöldum að útfærslu á svonefndri samningaleið, sem meirihluti starfshóps um endurskoðun fiskveiðistjórnarlaga hefur orðið sammála um að byggja á.  

Að sögn LÍÚ grundvallast sú leið á samningum ríkisins og rétthafa aflaheimilda um langtíma afnotarétt og skýrum ákvæðum um framlengingu samninga.

Starfshópurinn skilaði sjávarútvegsráðherra skýrslu sinni í dag. Segir sjávarútvegsráðuneytið, að skýrslan verði tekin þar til ítarlegrar meðferðar í og málið unnið áfram þannig að frumvarp verði lagt fyrir Alþingi nú í vetur. 

Í bókun LÍÚ, sem lögð var fram í starfshópnum, er bent á að réttur sjávarútvegsfyrirtækja til aflaheimilda sinna sé varinn af ákvæðum 72. greinar stjórnarskrárinnar, hvort sem um beinan eignarrétt eða atvinnurétt er að ræða. Einnig er þar áréttað að breytingar á lögum eða stjórnarskrá verði ekki gerðar nema að gættum þessum rétti, hvort sem hann sé tilkominn með veiðireynslu innan eða utan lögsögu eða kaupum á aflahlutdeild.  

Í bókun LÍÚ segir m.a. um samningaleiðina: „Þrátt fyrir að samningaleið kunni í einhverjum tilvikum að skerða núverandi rétt sjávarútvegsfyrirtækja leggjum við til að sú leið verði farin þar sem breið samstaða náðist um hana í starfshópnum. Forsendan er sú að með því verði sköpuð víðtæk sátt um fiskveiðistjórnina. Það er einnig forsenda af okkar hálfu, þar sem starfshópurinn gerir ekki tillögu um einstök efnisatriði samningaleiðarinnar, að ásættanleg niðurstaða náist í framhaldi af starfi starfshópsins um samningstíma, skýrleika á framlengingu samningstíma, hversu stórum hluta aflaheimila verður ráðstafað framhjá aflahlutdeild og önnur atriði sem skipta máli. Með vísan til framangreinds mun Landssamband íslenskra útvegsmanna áfram vinna með stjórnvöldum að útfærslu á samningaleiðinni.”

Vefur LÍÚ

Skýrsla starfshópsins

Skýrsla 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert