Morgunferð Herjólfs féll niður

Landeyjahöfn.
Landeyjahöfn. mbl.is/RAX

Fyrsta ferð Herjólfs í dag féll niður vegna veðurs en vindhraði á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist nærri 26 metrar á sekúndu í morgun. Ferjan átti að fara frá Vestmanneyjum kl. 6 og frá Landeyjahöfn kl. 7.30. Engar ferðir voru í gær vegna grynninga, sem mynduðust í Landeyjahöfn og var þá ákveðið að setja upp nýja bráðabirgðaáætlun sem miðast við að skipið sigli inn í höfnina á flóði.
 
Næsta ferð í dag er áætluð frá Vestmannaeyjum kl. 14.30 og frá Landeyjahöfn kl. 16. Farþegar eru beðnir um að hafa samband við afgreiðslustaði Herjólfs í s: 481-2800 og 483-3413.

Ögmundur Jónasson samgönguráðherra bendir á að óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður valdi truflun í Landeyjahöfn. Þær séu gosið í Eyjafjallajökli og óvenjuleg vindátt sem valdi meiri sandburði en reiknað hafi verið með. Hann telur að líta eigi til hentugri ferju sem framtíðarlausnar, en hún sé fjárfrek og peningar liggi ekki á lausu. Til skamms tíma eigi að horfa til Þorlákshafnar sem neyðarúrræðis.

Lóðsinn í Vestmannaeyjum mældi dýpi í Landeyjahöfn í gær. Sjólag var slæmt og sjór svo gruggugur að dýptarmælirinn sá ekki botninn. Þá var brugðið á það ráð að nota handlóð og voru niðurstöður byggðar á mælingum sem þannig fengust. Ekki þarf að fjarlægja nema um 2.000 rúmmetra af efni til að leiðin um Landeyjahöfn verði greið, að mati Siglingastofnunar. „Það er þröskuldur þarna fyrir framan sem er svona 30 metra breiður,“ sagði Jóhann Þór Sigurðsson, tæknifræðingur stofnunarinnar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem mikið af efni berst inn í Landeyjahöfn eftir að Björgun byrjaði að dýpka um páskana í fyrstu viku apríl. „Það kom gífurlegt magn þarna inn í austanveðri rétt eftir flóðið í Markarfljóti,“ sagði Gunnlaugur Kristjánsson, forstjóri Björgunar. Stórt jökulhlaup kom í Markarfljót 14. apríl sl. og minni hlaup í kjölfarið. „Þá grynnkaði mjög þarna og það sama virðist vera að gerast núna,“ sagði Gunnlaugur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert