Víðtækar rafmagnstruflanir

mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Viðtækar rafmagnstruflanir eru í flutningskerfi Landsnets um allt land. Stóriðjan hefur orðið rafmagnslaus að hluta en ekki er um straumleysi að ræða hjá almennum notendum né öllum stórnotendum. Svo virðist sem um sambærilega bilun sé að ræða og þann 1. september er rafmagni sló víða út.

Samkvæmt upplýsingum frá Írisi Baldursdóttir deildarstjóra kerfisstjórnar og markaðar hjá Landsneti, virðast upptökin vera á háspennuhlið álversins í Grundartanga og er unnið að viðgerð.

Búast má við áframhaldandi flökti á rafmagni en eins og staðan er núna hefur enginn almennur notandi orðið fyrir því verða rafmagnslaus.

„Um kl. 11:15 varð truflun í raforkukerfinu sem olli straumleysi hjá stóriðjunotendum. Orsök truflunar er á þessu stigi rakin til bilunar í rafbúnaði hjá Norðuráli á Grundartanga. Ekki varð um rof á afhendingu frá flutningskerfinu til almenningsveitna en talsverður óróleiki varð á spennu á Norður- og Austurlandi, þar sem miklar álagsbreytingar urðu við útleysingu stóriðju.  Verið er að koma rekstri aftur í eðlilegt horf," segir í tilkynningu frá Landsneti.

Að kvöldi miðvikudagsins 1. september varð bilun í rafbúnaði álvers Norðuráls á Grundartanga.

Þessi bilun olli því að allt álag fór af álverinu. Það samsvarar u.þ.b. 25% af heildarálagi í landinu. Miklar breytingar urðu á flæði í flutningkerfinu í kjölfarið. Skv. verndaráætlun var raforkukerfinu skipt í þrennt til að verjast trufluninni og vernda aðra viðskiptavini, einnig leystu framleiðslueiningar út á Suðvesturlandi, að því er fram kom í tilkynningu frá Landsneti þann 2. september sl..

Straumleysi varð hins vegar hjá almenningi á hluta Austurlands, líklega vegna bilunar í búnaði þar og er það mál í sérstakri athugun. Einnig leysti hluti af álagi álversins í Straumsvík og Járnblendiverksmiðunnar á Grundartanga út við truflunina.

Önnur víðtæk truflun í flutningskerfi Landsnets varð 7. maí síðastliðinn þegar flutningur um byggðalínuna rofnaði með rafmagnsleysi víða um land.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert