„Hálfgerð sprenging"

Lestin, sem lenti í árekstrinum í gær.
Lestin, sem lenti í árekstrinum í gær. Reuters

Íslensk kona, sem var í hraðlest sem lenti á traktorsgröfu í Svíþjóð í gær, segir að hálfgerð sprenging hafi orðið þegar áreksturinn varð. Allt og allir hentust til, rúður sprungu inn í lestina,  sæti losnuðu og glerbrot dreifðust um allt.  Þá myndaðist reykur en enginn eldur sást.      Íslensku konuna sakaði ekki en 18 slösuðust við áreksturinn, þar af ein kona lífshættulega. 

Áreksturinn varð nálægt lestarstöðinni í Kimstad milli Linköping og Norrköping. Um 250 farþegar voru í lestinni sem fór frá Stokkhólmi síðdegis í gær áleiðis til Malmö.

Ingunn Ósk Ólafsdóttir, sem var meðal farþega í lestinni, segir í tölvupósti til mbl.is, að rétt áður en slysið varð hafi verið tilkynnt í hátalara lestarinnar að stöðva þyrfti og bíða vegna vinnu við lestarteinana. Lestin lagði síðan af stað aftur eftir 15 mínútna bið og skömmu síðan lenti hún á traktorsgröfunni, sem var á brautarteinunum.

Ingunn Ósk segir, að við þetta hafi lestin farið út af teinunum og hefði sjálfsagt oltið hefði hún verið búin að ná fullum hraða. Ingunn segir, að ekki hafi gripið um sig skelfing meðal farþeganna og ótrúlega vel hafi gengið að koma fólki úr lestinni. Sjálf var Ingunn í þeim vagni, sem mest skemmdist við áreksturinn.

Ingunn Ósk er læknir og hugaði að slösuðu fólki ásamt þremur öðrum læknum í lestinni. Þeir sem slösuðust voru fluttir með sjúkrabílum á nálæg sjúkrahús. Ein stúlka var alvarlega slösuð á höfði og veitti Ingunn Ósk og tveir aðrir læknar henni bráðahjálp. 

Að sögn fréttavefjar Dagens Nyheter var slasaða konan flutt á háskólasjúkrahúsið í Linköping þar sem hún gekkst undir aðgerð í nótt. Ökumaður traktorsgröfunnar slasaðist einnig alvarlega og var fluttur á Vrinnevisjukhuset í Norrköping.

Meðal þeirra sem slösuðust voru þrír danskir drengir, sem voru í hópi danskra ungmenna á leið heim  úr keppnisferð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert