Vextir geta orðið þungur baggi

Ásta S. Helgadóttir, umboðsmaður skuldara.
Ásta S. Helgadóttir, umboðsmaður skuldara. mbl.is/Árni Sæberg

Umboðsmaður skuldara telur að niðurstaða Hæstaréttar í bílalánamálinu sé ekki sú hagstæðasta fyrir skuldara. Vextir lánanna geti reynst þeim afar þungur baggi.

Ásta S. Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, sendi frá sér yfirlýsingu, eftir að dómur Hæstaréttar lá fyrir. „Það liggur fyrir að í flestum tilfellum muni höfuðstóll lána lækka verulega frá þeim tíma þegar gengistryggð lán töldust lögmæt en líta verður til þess að sú niðurstaða að vextir skuli á hverjum tíma vera jafnháir lægstu óverðtryggðu vöxtum Seðlabanka Íslands getur reynst skuldurum afar þungur baggi. Fer slíkt eftir því á hvaða tíma hið ólögmæta gengistryggða lán var tekið.“

Lægstu óverðtryggðu vextir Seðlabanka Íslands eru nú 7,75%, en á tímabilinu frá september 2006 til júní 2009 voru lægstu óverðtryggðu vextir frá 15% til 21%. Þessa vexti þurfa sumir skuldara nú að borga.

Þá segir umboðsmaður skuldara að enn standi eftir fjölmargar ósvaraðar spurningar, meðal annars hvort farið verði í endurreiknað uppgjör á þeim lánasamningum sem töldust uppgerðir að fullu þegar Hæstiréttur dæmdi gengistryggingu ólögmæta með tveimur dómum þann 16. júní sl.  

Umboðsmaður skuldara fagnar því að óvissu hafi nú verið létt af þúsundum heimila með þessum fordæmisgefandi dómi um vexti gengistryggðra lána. „Óvissan um vexti þessara lána hefur reynst skuldurum mjög erfið og tafið það mjög að einstaklingar í greiðsluerfiðleikum geti áttað sig á sinni raunverulegu skuldastöðu og endurskipulagt fjármál sín í samræmi við hana.“

Umboðsmaður skuldara telur jákvætt að ríkisstjórnin stefni að jafnræði skuldara með löggjöf sem nái til allra gengistengdra bíla- og húsnæðislána, óháð orðalagi lánasamninga. Þá telur umboðsmaður skuldara það jafnframt jákvætt að ríkisstjórnin stefni að því að málum verði flýtt í meðförum bankanna.

Nú liggur fyrir að mikil vinna er framundan varðandi endurútreikning lána og telur umboðsmaður eðlilegt að kostnaði við þá vinnu verði ekki velt yfir á skuldara, heldur borin af fjármálafyrirtækjum sem veittu hin ólögmætu lán.

Umboðsmaður skuldara mun fylgjast grannt með framkvæmd þessara mála og leita leiða til að tryggja hagsmuni skuldara.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert