Ekki skilyrði fyrir afturköllun álits nefndar um erlenda fjárfestingu

Það er niðurstaða nefndar um orku- og auðlindamál að ekki séu uppfyllt skilyrði fyrir því að stjórnvöld afturkalli álit nefndar um erlenda fjárfestingu á grundvelli heimildar stjórnsýslulaga. Skýrsla nefndarinnar er birt á vef forsætisráðuneytisins en Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra kynnti skýrsluna á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að skoðun nefndarinnar á þeim samningum sem hún fékk aðgang að leiddi ekki í ljós neina augljósa annmarka. Frá lagalegum sjónarhóli sé ekki tilefni til að gera athugasemdir við samningana sem slíka. Magma Energy Sweden AB sé stofnað með lögformlegum hætti í Svíþjóð og uppfylli því formleg skilyrði   fjárfestingarlaga fyrir því að eiga fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu hér á landi.

Bendir nefndin á að með hliðsjón af því megi álykta að fyrirtækið sé löglegur kaupandi að hlutum í HS Orku hf.

„Sú niðurstaða að Magma Energy Sweden AB uppfylli skilyrði fjárfestingarlaganna og megi því fjárfesta í íslenskum orkuiðnaði byggist á því að horfa fyrst og fremst til þess að hið sænska félag er lögaðili á hinu Evrópska efnahagssvæði og uppfyllir þar með skilyrði laganna fyrir því að mega fjárfesta í íslenskum orkuiðnaði.“ 

Nefndin tekur þó fram að annar möguleiki hefði einnig verið tækur við skýringu og beitingu laganna. Sé litið til raunverulegra tengsla fyrirtækjanna, kanadíska móðurfélagsins og þess sænska, og leyst úr málinu á grundvelli þeirra jafnframt því að túlka ákvæði fjárfestingarlaganna með hliðsjón af markmiði þeirra og innra samhengi, hefði mátt færa fyrir því rök að kaup Magma Energy standist ekki ákvæði íslenskra laga. Nefndin leggur áherslu á að hér sé um lagalega flókin álitamál að ræða sem jafnframt varði ríka almannahagsmuni.

Skýrslan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert