Vantraust á störf þingmannanefndar?

Árni Þór Sigurðsson.
Árni Þór Sigurðsson.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sagði á Alþingi nú síðdegis, að hann hefði ekki heyrt betur en að í orðum Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í umræðum um málshöfðun gegn fyrrum ráðherrum, hefði falist visst vantraust á störf þingmannanefndar, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Jóhanna gagnrýndi meðal annars í ræðu sinni málsmeðferðina í þingmannanefndinni og lýsti efasemdum um að fyrrverandi ráðherrar, sem nefndarmenn leggja til að Alþingi ákæri, hafi notið nægilegs andmælaréttar. Nefndi hún sérstaklega Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra og lýsti þeirri skoðun að hún yrði að öllum líkindum sýknuð fyrir landsdómi, fari mál hennar þangað.

Jóhanna sagði, þegar hún svaraði Árna Þór, að hún hefði virt þau sjónarmið, sem þingmannanefndin færði fram en áskyldi sér jafnframt rétt til að hafa  sjálfstæða skoðun á málinu.

Árni Þór sagði, að engum hefði blandast hugur um að það væri verkefni þingmannanefndarinnar að leggja meðal annars mat á hvort ákæra ætti fyrrverandi ráðherra fyrir landsdómi.

Hlé var gert á þingfundi eftir ræðu Jóhönnu á sjötta tímanum en umræðan hófst síðan á ný laust fyrir klukkan 18. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins kom efni ræðu Jóhönnu þingmönnum Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs á óvart.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert